*

Menning & listir 31. júlí 2021

Þungarokkarar í raun algjörir innikisar

Birgir Jónsson, forstjóri Play, ræðir væntanlega kröstpönk plötu Bastarðar en tónlistin á að höfða til eins fárra og hægt er.

Andrea Sigurðardóttir

Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, hefur undanfarið unnið að gerð nýrrar plötu með Aðalbirni Tryggvasyni, söngvara og gítarleikara Sólstafa, undir merkjum hljómsveitarinnar Bastarður. Platan kemur út 29. október næstkomandi.

„Við Addi erum góðir vinir, en hann er söngvari Sólstafa. Við settum plötuna saman fyrir tveimur árum og hún átti að koma út í fyrra, en tafðist vegna faraldursins. Addi er náttúrulega svo frægur að um leið og hann fór að láta plötufyrirtækið sitt heyra einhverjar demóupptökur vildu þeir bara gefa þetta út, þannig að maður var allt í einu kominn á erlendan plötusamning á gamals aldri. En þetta er alveg ótrúlega gaman, hjartað slær alltaf í þessum bisness og maður á ótrúlega mikið af góðum vinum í þessu," segir Birgir.

Þeir félagar byrjuðu bara tveir en smám saman fór að fjölga í hópi þeirra sem komu að gerð plötunnar.

„Ýmsir vinir okkar sem eru í frægum hljómsveitum fóru að safnast með í þetta, Þráinn Árni Baldvinsson úr Skálmöld og Flosi Þorgeirsson úr Ham, Ragnar Zolberg og fleiri snillingar ásamt einhverjum útlenskum rosa frægum vinum hans Adda sem verða á þessari plötu líka. Það eru menn á borð við Allan Averill sem er í stóru írsku bandi sem heitir Primordial og einhver rosa frægur gæi úr þýska dauðarokksbandinu Morgoth. Ég er algjör túristi í þessum heimi en Addi er búinn að vera að túra í tuttugu ár í þessari erlendu senu og er bara að éta seríós með þessum strákum og gera jóga. Ég var náttúrulega bara í Dimmu og er bara frægur í Vestmannaeyjum."

Satan missti sinn besta son

Platan mun heita Satan's Loss of Son, sem á íslensku gæti útlagst sem Sonarmissir Satans og kemur til af lífsstílsbreytingu Aðalbjörns.

„Platan heitir Satan's Loss of Son en nafnið kom til af því að Addi, sem semur textana og syngur, öskrar eða hvað maður á að kalla það, hann hætti að drekka og svona fyrir einhverjum 3-4 árum síðan og hann setur þetta þannig upp að þar með hafi Satan misst sinn besta son, þegar hann ákvað að verða góður maður."

Blaðamaður minnist á að það sé svolítið dramatískt og Birgir tekur undir það: „Þungarokkið er svolítið svona, það er verið að leika sér með þessi minni og þessi þemu, en auðvitað er þetta allt ákveðið leikhús. Þungarokkarar eru í raun ástríkustu menn sem þú hittir, allir í faðmlögum, bestu vinir allra, opnir og fordómalausir en eru svo að leika sér að einhvers konar hryllingsmyndaþema í þungarokkinu. Allir að reyna að vera rosa harðir og leyna því að þeir eru allir bara voðalegir innikettir."

Geðveikur hávaði

Fyrsta lag sveitarinnar, Viral Tumor, er þegar komið út, en um er að ræða grjóthart og grípandi kröstpönk.

„Þetta er alveg geðveikur hávaði, alveg geðveikt pönk. Þetta er svona pönk með mjög þungum Gautaborgaráhrifum, svona 90's dauðarokk og náttúrulega bara alveg geggjað. Maður getur rekið flugfélag, maður getur flogið flugvél, en að spila þessa tónlist er svipað og að fljúga einhverri orrustuþotu út í geim, þetta er náttúrulega bara eitthvað „rush", nokkurs konar ofbeldi - eins og að verða fyrir lest."

Textinn er í raun öskraður yfir tónlistina og það er, í það minnsta í tilfelli Viral Tumor, enginn hægðarleikur að átta sig á hvað lagið fjallar um, raunar veit Birgir það ekki einu sinni sjálfur.

„Ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað maðurinn er að öskra um en þetta er alveg örugglega eitthvað alveg voðalegt hjá honum Adda. En það er svolítið línan í þungarokkslögum almennt að það er einhver að ýta á þig, ýta þér niður, og þú ert einhvern veginn alltaf að reyna að sjá ljósið og berjast á móti því."

Tveir ólíkir heimar

Birgir segir mikinn mun á Bastarði og Dimmu. „Dimma er alveg geggjað band, mjög poppskotin og mjög aðgengileg hljómsveit, en mér finnst rosalega gaman líka að spila svona tónlist sem er kannski ekkert fyrir alla heldur algjör þungarokks nördamúsík. Við höfðum náttúrulega allir verið í svona hljómsveitum sem spila þannig músík að maður var alltaf að spila fyrir sömu 40-50 hræðurnar á þungarokkstónleikum en við ákveðum bara að í Dimmu ætlum við að gera aðgengilega tónlist, okkur langaði að vera í hljómsveit sem einhver nennti að hlusta á, ekki bara alltaf sömu 40 hræðurnar. Tónlist Bastarðar gengur aftur á móti út á að það eiga bara fáir að hlusta, hún á að vera eins óaðgengileg og hægt er. Ef það koma bara þrír á tónleika þá er það bara töff, vegna þess að þessir þrír eru rosalega kúl. Þannig að þetta eru tveir ólíkir heimar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Play  • Aðalbjörn Tryggvason  • Sólstafir  • Dimma  • Bastarður  • Bigir Jónsson