*

Hitt og þetta 3. mars 2015

Þurfti að læra að vinna með konum

Linda Gunnarsdóttir var meðal fyrstu kvenna til að setjast í flugstjórasætið hér á landi.

Jóhannes Stefánsson

Linda Gunnarsdóttir, þjálfunarflugstjóri hjá Icelandair, hefur starfað í flugbransanum í 24 ár. Hún var meðal fyrstu kvenna til að setjast í flugstjórasætið hér á landi.

Þrjátíu konur starfa nú sem flugmenn eða -stjórar hjá Icelandair. Það er mun meiri fjöldi kvenna í flugstjórnarklefanum en áður tíðkaðist. „Fyrirtækið hefur markvisst unnið í því á undanförnum árum að leiðrétta kynjamun, bæði fram í og aftur í. Flugfreyjustarfið var hefðbundið kvennastarf, en það er líka að breytast,“ segir Linda.

Eftir að hafa nær eingöngu starfað með körlum til fjölda ára ákvað Linda að setjast aftur á skólabekk og skráði sig í viðskiptafræði í HR. Þá hafi hún áttað sig á því að það væri talsverður munur að vinna með konum og körlum.

„Ég fattaði þetta fyrst þegar ég fór í HR. Þar er mikið hópastarf. Þegar ég var búin að vera tvö ár í háskólanum áttaði ég mig á því að ég valdi alltaf strákahópa til að vinna með, því það var það sem ég kunni og þekkti. Þá fór ég meðvitað síðasta árið að reyna að vinna sem mest með konum til að læra það,“ segir Linda.

Nánar er spjallað við Lindu í Eftir vinnu, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.