*

Ferðalög 9. júní 2013

„Þurftum“ að skoða allt í Kína

Katrín Olga Jóhannesdóttir segir Viðskiptablaðinu frá eftirminnilegustu ferð sinni, sem farin var til Kína árið 2003.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarformaður og einn eigenda Já, sagði Viðskiptablaðinu frá eftirminnilegustu ferð sinni í síðustu viku á reglulegri þemasíðu blaðsins um ferðalög.

Katrín Oga rifjaði upp eftirminnilegustu ferð sína sem var til Kína árið 2003 þegar hún og eiginmaður hennar sóttu verðandi dóttur þeirra, Hrafnhildi Ernu, til Jiangxi héraðs í Suðvestur-Kína.

„Undirbúningur ferðarinnar var eins og löng meðganga og var mikil gleði þegar við fréttum síðla september þetta ár að við ættum litla dóttur í Kína. Ferðin hófst í Peking og við tók mikið prógram – við vorum sem sagt meðhöndluð eins og almennir túristar og skyldum skoða sem mest í þessari ferð okkar,“ segir Katrín Olga.

„Þar sem þetta var nú ekki alveg tilgangur ferðarinnar, tók það á taugarnar að „þurfa“ að skoða allar þessa merku staði s.s. Torg hins himneska friðar, Sumarhöllina og þramma Múrinn með meiru. En eftir á eru þetta góðar minningar sem tengja okkur enn frekar við Kína.“

Katrín Olga segir frá því þegar þau hafi eftir nokkra daga loksins fengið að stíga upp í flugvél og halda á vit örlaganna.

„Þar beið dóttir okkar og það var mikil tilfinningastund þegar við fengum hana í fangið,“ segir Katrín Olga.

„Við tóku dagar í höfuðborg Jiangxi héraðs, sem var eytt í skoðunarferðir og samveru. Síðan hafa liðið tíu hamingjurík ár, full af skemmtilegum hlutum, þar á meðal önnur stór gjöf lífs okkar, en við segjum að dóttir okkar hafi fært okkur bróður sinn, Baldur Breka, sem kom í heiminn ári eftir Kínaferðina. Já, ferðirnar í lífinu gerast vart stærri.“