*

Ferðalög 9. febrúar 2014

Þúsundir Íslendinga spila golf erlendis

Sérhannaðar íþróttaferðir njóta sífelldra vinsælda. Íslendingar fara einkum til Spánar í golf og á skíði í Austurríki.

Sérstakar íþróttaferðir hafa notið vinsælda um árabil og virðast vinsældir þeirra fara vaxandi. Íþróttahópar, bæði meistaraflokkar og yngri flokkar, nýta sér þjónustu ferðaskrifstofa til að fara út í æfinga- og keppnisferðir. Golfiðkendur og skíðaiðkendur fara líka til útlanda í auknum mæli. Skíðaiðkendur nýta fyrstu mánuði ársins til að bregða sér út fyrir landsteinana og fara flestir í febrúar.

Golfferðir eru vinsælar allt árið, en vinsælastar seint á haustin og snemma á vorin. Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri hjá Heimsferðum, segir að Íslendingar sem fari í golfferðir á vegum ferðaskrifstofunnar nálgist 3.000. Einkum er flogið til Spánar, sérstaklega til suðurhluta Spánar, á Alicante og La Gomera.

Eftir áramótin eru skíðaferðirnarhins vegar vinsælastar, en þá er farið til Austurríkis. Sá hópur sem fer á skíði á vegum fyrirtækisins er þó ekki nema lítið brot af þeim hópi sem fer í golfferðirnar, eða um 500 manns. „Það er náttúrlega lengra tímabil í golfinu. Skíðatímabilið er raunverulega bara janúar, febrúar og byrjun mars,“ segir Tómas. Tómas segir að golfferðirnar hjá fyrirtækinu hafi gengið mjög vel. „Ég hugsa að við nálgumst það að vera stærstir í skipulögðum golfferðum, ef við erum ekki orðin það nú þegar,“ segir hann. Golfferðirnar sem Heimsferðir bjóða upp á eru frá viku og upp í tíu til ellefu daga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .

Stikkorð: Golf