*

Hitt og þetta 20. desember 2013

Þúsundir leggja leið sína í kirkjugarðana

Allan desembermánuð streymir fólk í kirkjugarðana en mestur er fjöldinn á sjálfan aðfangadag.

Það er ómissandi þáttur í jólahaldi margra, ef ekki flestra landsmanna, að vitja leiða látinna ættingja á aðventu og jólum. Í Reykjavíkurprófastsdæmum eru fjórir kirkjugarðar, en það eru Hólavallagarður, Fossvogskirkjugarður, Kópavogskirkjugarður og Gufuneskirkjugarður. Þorgeir Adamsson, garðyrkjustjóri hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur, segir aðspurður að sá fjöldi sem heimsæki garðana í desember skipti þúsundum.

Hann segir að mesta umferðin í garðana sé á aðfangadag. „Fólki finnst það skipta máli að koma á sjálfan aðfangadag og heimsækja leiði ástvina,“ segir Þorgeir. Hann segir þó að fjöldinn geti verið mismunandi eftir aðstæðum og eftir því á hvaða vikudegi aðfangadagur er. Sé aðfangadagur um helgi geti umferðin dreifst á fleiri daga. Sé aðfangadagur í miðri viku er líklegt að fleiri komi þann daginn. Sú hefð hefur skapast hjá mörgum fjölskyldum að fara með skreytingar að leiðum fyrir jólin en koma svo aftur og kveikja ljós á aðfangadaginn sjálfan.

Þorgeir segir það skipta máli úr hverju skreytingarnar eru gerðar. „Við leggjum mesta áherslu á lífrænar skreytingar sem hægt er að endurvinna á staðnum, án mikillar fyrirhafnar,“ segir Þorgeir. Þannig verði ekki sóðaskapur af skreytingunum heldur sé hægt að farga þeim á staðnum, í jarðgerð. Þorgeir segir að fólk sé orðið duglegt við að nota vistvænar skreytingar, en mætti vera enn duglegra. „Skreytingum sem eru ekki úr gerviefnum hefur fjölgað en við viljum sjá enn meiri aukningu í þannig skreytingum,“ segir Þorgeir.

Þorgeir varar fólk við því að kaupa plastskreytingar, en stundum hefur verið hægt að fá þær á bensínstöðvum, svo dæmi séu nefnd. „Í mínum huga ætti fólk að kaupa skreytingar hjá fagverslunum eða búa þær til sjálft. Og miða þá við að nota náttúruleg, lífræn efni,“ segir Þorgeir.

Í Jólagjafahandbók Viðskiptablaðsins var fjallað um leiðisskreytingar. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.