*

Ferðalög 6. júní 2013

Þýska eyjan Sylt tilvalinn sumarleyfisstaður

Ef fólk ætlar að fara í rólegt frí á fallegri eyju, ekki svo langt frá Íslandi, er nyrsta eyja Þýskalands góð hugmynd.

Fjallað er um þýsku eyjuna Sylt á bbc.com þar sem mælt er sérstaklega með eyjunni fyrir ferðamenn í sumar.

Eyjan hefur farið undir radarinn þegar kemur að ferðamannaiðnaðinum og þykir hin huggulegasta. Á Sylt er nefnilega ekki að finna margar sönglandi fótboltabullur í lederhosen ráfandi um með lítra bjórkönnur í hendi. Andrúmsloftið er afslappað og rólegt og friðsælt. Besti tíminn til að heimsækja Sylt er á sumrin og strax í maí fer að hlýna. Stærsti bærinn heitir Westerland en þar búa 9000 manns.

Eyjan er undurfögur og best er að ferðast um eyjuna á hjóli og heimsækja litla þorp og njóta strandlengjunnar sem þykir einstök í veröldinni. 

Sylt var upphaflega dönsk eyja og var áföst meginlandinu til 1361 en þá braut sjórinn af landinu í stormflóði. Árið 1864 varð eyjan þýsk þegar Bismarck hertók Slésvík í prússnesk-danska stríðinu. Eyjan varð tengd á ný við meginlandið árið 1927 og síðan var lögð járnbrautalína til eyjarinnar og ganga lestir reglulega til Sylt. 

 

Stikkorð: Þýskaland  • Sumarfrí  • Sylt