*

Tölvur & tækni 22. maí 2013

Þýskt hugbúnaðarfyrirtæki vill ráða hundruð einhverfra

Einhverfir nálgast viðfangsefni á frumlegan hátt og búa margir yfir sérgáfum. Þetta gerir þá eftirsótta í hugbúnaðargeiranum.

Þýska hugbúnaðarfyrirtækið SAP hyggst ráða til starfa hundruð einstaklinga með einhverfu. Fyrirtækið segir einstaklinga með einhverfu búa yfir einstökum hæfileika þegar greina á upplýsingar.

Fyrirtækið vill að árið 2020 verði 1% af alþjóðlegum starfsmönnum, sem eru 65.000 talsins, einstaklingar með einhverfu.

Einhverfa kemur oftast fram við þriggja ára aldur og felur í sér mikla skerðingu á félagslegri virkni og tilfinningatengslum og samskiptum við annað fólk og umhverfið. Þó búa einstaklingar með einhverfu oft yfir mögnuðum sérgáfum og frumlegri hugsun og nálgun á alls konar viðfangsefni og það er það sem SAP finnst eftirsóknarvert.

„Með því að ráða inn fólk sem hugsar öðruvísi og nálgast hlutina frá jaðrinum, mun SAP skara fram úr,“ segir Luisa Delgado forstjóri fyrirtækisins.  

Talið er að um 1% mannkyns sé á einhverfurófinu. BBC segir frá málinu á fréttasíðu sinni. 

Stikkorð: SAP  • Einhverfa