*

Bílar 14. október 2012

Þýsku lúxusbíla­framleiðendurnir slá sölumet

Það er ótrúlegur árangur að slá sölumet á sama tíma og sala hefur dregist verulega saman í Evrópu.

Þýsku lúxusbílamerkin Audi, BMW og Mercedes-Benz hafa aldrei selt fleiri bíla og á þessu ári. Þetta er athyglisvert í ljósi þess mikla samdráttar sem er í bílasölu í Evrópu og margir stærstu bílaframleiðendur álfunnar eiga erfitt.

Audi og BMW höfðu hvor fyrir sig selt yfir eina milljón bíla á fyrstu 9 mánuðum ársins og Mercedes-Benz var búið að selja rétt tæplega milljón bíla á þessu tímabili sem er met í 126 ára sögu bílaframleiðandans.

Sala á Audi í september jókst um 13,6% á heimsvísu og nam 136.600 bílum. Mikil aukning varð einnig í sölu á BMW og í september seldust 136.600 bílar. Þetta er í fyrsta sinn í sögu beggja merkjanna sem salan nær yfir einni milljónum á einungis níu mánuðum. Mercedes-Benz, hafði selt 964.926 bíla fyrstu níu mánuðina sem er meira en nokkru sinni áður og 5% hærra en á sama tíma í fyrra. Nú hefur fyrirtækið hafið sölu á nýjum A-Class sem búist er við að auki söluna enn frekar á bílum framleiðandans. Mercedes-Benz er það lúxusbílamerki sem selst mest í Bandaríkjunum og Þýskalandi.

,,Þrátt fyrir erfiðleika á mörgum markaðssvæðum hefur árangurinn verið fram úr björtustu vonum. Ef heldur sem horfir þá stefnir í nýtt sölumet fyrir árið 2012. Við eigum enn mikið inni á síðasta ársfjórðungi m.a. m.a. með komu hins nýja A-Class á markaði. Við erum því mjög bjartsýn á næstu mánuði,“ segir Dr. Joachim Schmidt, aðstoðarforstjóri sölu- og markaðssviðs Mercedes-Benz.

Stikkorð: Audi  • BMW  • Mercedes Benz