*

Sport & peningar 19. júlí 2015

Tiger Woods ofmetnasti íþróttamaður heims

Kylfingurinn Tiger Woods hlýtur þann vafasama heiður að vera ofmetnasti íþróttamaður heims, samkvæmt CNN Money.

CNN Money hefur komist að þeirri niðurstöðu að Tiger Woods sé ofmetnasti íþróttamaður heims, miðað við tekjur hans og gengi í keppnum á síðasta ári. Woods hafði 50,6 milljónir dollara í tekjur á síðasta ári, eða jafnvirði 6,8 milljarða króna. Einungis 600.000 dollarar voru verðlaunafé. Afgangurinn voru tekjur úr auglýsinga- og styrktarsamningum.

Floyd Mayweather var tekjuhæsti íþróttamaður heims á síðasta ári, eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum. Í öðru sæti var keppinautur hans Manny Pacquiao. Þeir eru báðir á meðal bestu boxara heims.

Fótboltastjörnurnar Christiano Ronaldo og Lionel Messi eru sömuleiðis á meðal þeirra bestu, ef ekki þeir allra bestu, í sínu fagi. Þeir skipa þriðja og fjórða sæti listans. Í sjötta og sjöunda sæti eru þeir LeBron James og Kevin Durant.

Tennisstjarnan Roger Federer er í fimmta sæti listans. Honum hefur vissulega ekki gengið vel upp á síðkastið. En eins og CNN Money bendir á er Tiger Woods nú í 241. sæti yfir bestu golfara heims. Hann hefur ekki unnið stórt mót síðan árið 2008, áður en upp komst um stórfelld framhjáhöld hans. Þrátt fyrir þetta er hann níundi tekjuhæsti íþróttamaður heims.

Phil Mickelson er eini kylfingurinn sem hafði hærri tekjur en Woods á síðasta ári. Greinarhöfundur CNN Money veltir því fyrir sér hvort það hljóti ekki að fara að breytast.

Stikkorð: Tiger Woods  • Golf