*

Sport & peningar 5. júní 2013

Tiger Woods tekjuhæsti íþróttamaður heims

Tiger Woods hefur endurheimt efsta sæti á lista Forbes yfir tekjuhæstu íþróttamenn í heimi.

Bandaríski golfarinn Tiger Woods er orðinn hæst launaði íþróttamaður heims á nýjan leik. Í kjölfar mikillar dramatíkur í einkalífinu á árinu 2009 hrundu tekjur hans, fimm styrktaraðilar riftu samningum og tekjur Tiger Woods lækkuðu um 50 milljónir dollara, jafnvirði ríflega 6 milljörðum króna. 

Sex sigrar á síðustu tólf golfmótum hafa fleytt Tiger efst á lista yfir tekjuhæstu íþróttamenn heims, samkvæmt lista Forbes tímaritsins. Tiger var efstur á listanum frá 2001 til 2012, en þá náði boxarinn Floyd Mayweather efsta sætinu. 

Forbes metur árstekjur Woods í fyrra um 78,1 milljón dollara. Í öðru sæti listans er tenniskappinn Roger Federer og í því þriðja situr Kobe Bryant, leikmaður Los Angeles Lakers í NBA deildinni. Í næstu sætum eru LeBron James (NBA), Drew Brees (NFL), Aaron Rodgers (NFL), Phil Mickelson (golf), David Beckham og Cristiano Ronaldo.

Lista Forbes má sjá hér.

Stikkorð: Tiger Woods