*

Bílar 6. ágúst 2016

Tignarlegur sportjeppi

Nýr Volkswagen Tiguan hefur stækkað talsvert miðað við fyrri gerð en breytingarnar eru ekki síður í betri aksturseiginleikum.

Róbert Róbertsson

Önnur kynslóð af sportjeppanum Volkswagen Tiguan verður kynnt formlega hér á landi um miðjan ágúst. Nýr Tiguan hefur stækkað talsvert miðað við fyrri gerð en breytingarnar eru ekki síður í betri aksturseiginleikum.

Nýi bíllinn er afar vel heppnaður í hönnun bæði að innan og utan. Það hafa ekki verið gerðar neinar róttækar breytingar á útlitinu en línurnar hafa samt verið skerptar og útkoman er mjög góð. Þeim hefur tekist vel til hönnuðunum í höfuðstöðvum Volkswagen í Wolfsburg í Þýskalandi. Framgrillið er fallegt með krómramma sem gefur voldugt útlit og framljósin eru stílhrein og flott. Sama má segja með afturenda bílsins þar sem dökkrauð LED ljósin spila stóra rullu. Bíllinn hefur heilt yfir kraftmikið útlit en á sama tíma býr hann yfir fágun. Þetta er einn fallegasti sportjeppinn á markaðnum í dag að mínu mati.

Hraðamælir í framrúðunni

Innanrýmið er sömuleiðis vel heppnað og nokkuð klassískt frá Volkswagen. Mælaborðið er stafrænt og flott og það besta finnst mér þegar hraðamælirinn kemur fram stafrænn í framrúðunni ásamt hámarkshraða á viðkomandi stað. Þetta er búnaður sem maður sér yfirleitt í dýrari bílum og er ansi sportlegur. 8” snertiskjárinn setur svip sinn á innréttinguna og Panorama sóllúgan er flott og veitir fallega birtu inn í bílinn. Frágangur er allur vandaður eins og venja er hjá Volkswagen.

Reynsluakstursbíllinn er í svokallaðri Highline útfærslu sem er sú flottasta sem er boði, og afar vel búinn. Má þar nefna aðstoð við að leggja í bílastæði, bakkmyndavél og hita í stýrinu svo nokkuð sé nefnt. Þó var hann reyndar ekki með leðursætum en hann er að öðru leyti mjög vel búinn. Hægt er að sjálfsögðu að fá leðursæti í bílinn.

Fín fjöðrun og stýring

Nýr Tiguan er með mjög góða aksturseiginleika bæði á malbiki og malarvegum. Hann fór létt með ójöfnur á mölinni. Fjöðrunin og stýringin er hvort tveggja afbragðsgóð. Bíllinn er vel þéttur og lítið sem ekkert vélar- eða veghljóð heyrist inn í hann á ferð. Það helsta sem mætti setja út á er að vélin mætti vera kraftmeiri en 2 lítra dísilvélin skilar 150 hestöflum í þessari útfærslu og togið er 340 Nm. Fyrir marga er þetta þó ekki umhugsunarefni en maður finnur aðeins fyrir því ef þarf að taka fram úr eða fara hratt af stað að aflið mætti vera meira.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Volkswagen  • Tiguan