*

Heilsa 17. febrúar 2015

Til fjalla ég fer

Á netinu má finna ýmsa gönguklúbba sem opnir eru öllum. Vesen og vergangur er einn þeirra.

Ásta Andrésdóttir

„Nafn klúbbsins er í raun og veru andheiti,“ segir Einar Skúlason, forvígismaður og stofnandi Vesens og vergangs, eins af vinsælustu gönguklúbbunum sem finna má á Facebook. Meðlimum fer sífellt fjölgandi og eru þeir nú fleiri en fimm þúsund.

„Þessi félagsskapur snýst fyrst og fremst um að losna við bílavesen og forða því að fólk sé eitt ráfandi um í óbyggðum. Það er jú öruggara að ganga í hóp. Svo hefur starfsemin undið upp á sig og nú eru nokkrir sem skipuleggja göngur og við höfum til dæmis verið með stighækkandi gönguseríu fyrir byrjendur og einnig staðið fyrir rötunarnámskeiðum, sem er hið besta mál.“

Allir velkomnir í klúbbinn

Göngurnar sem Vesen og vergangur skipuleggur eru af ýmsum toga. Þar er að finna allt frá stuttum, ókeypis gönguferðum í nágrenni höfuðborgarinnar, gjarnan í miðri viku, og upp í langar ferðir víðar á landinu þar sem þátttakendur deila kostnaðinum. Allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi.

Þátttakendur í einni göngunni nýverið voru á aldrinum frá 11 ára og upp í áttrætt. Og á Snæfellsnesi fagnaði einn þátttakenda sextugsafmæli sínu nýlega, að sögn Einars, sem ítrekar að allir séu velkomnir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.