*

Bílar 4. febrúar 2019

Til í að keppa í kappakstri

Útvarpsmaðurinn Frosti Logason, annar stjórnandi útvarpsþáttarins vinsæla Harmageddon á X-inu, er áhugamaður um bíla.

Róbert Róbertsson

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

,,Uppáhaldsbíllinn minn er yfirleitt bara sá sem ég keypti mér síðast. Ég fékk mér Hyundai Ioniq Electric síðasta haust og það voru klárlega bestu kaup lífs míns. Ég var búinn að vera efins með rafbíla en sá viðtal við Elon Musk hjá Joe Rogan í byrjun september. Þar varð ég endanlega sannfærður og keypti þennan nokkrum dögum síðar. Bíllinn hefur komið ótrúlega vel út og ég er í raun enn að meðtaka þá staðreynd að ég þurfi ekki að stíga fæti framar inn á bensínstöð. Það er ótrúlega góð tilfinning. Svo er hann ótrúlega lipur í snjónum líka. Auðvitað er drægnin ekki jafnmikil og á bensínbílunum en ef ég skyldi þurfa fara út á land einhvern tímann, sem gerist mjög sjaldan, þá er alltaf einhver sem er til í að skipta við mig yfir eina helgi eða svo. Kostirnir eru margfalt fleiri en ókostirnir."

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

,,Ætli það séu ekki þessar tvær ferðir þegar ég klessukeyrði með stuttu millibili tvo vinnubíla hjá Fróða útgáfufélagi hérna í gamla daga. Ég var átján eða nítján ára gamall með lítið sem ekkert á milli eyrnanna. Í bullandi órétti í bæði skiptin alveg blautur bak við eyrun. En maður lærði ótrúlega mikið á því að sendast með Séð & Heyrt, Mannlíf, Vikuna og fleiri blöð milli verslana í Reykjavík alla daga. Það var góður skóli."

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)?

,,Já fyrir utan sjálfan mig náttúrlega þá er það sennilega vinur minn hann Helgi Geir Arnarson. Hann er ævintýralegur ökumaður sem selflytur erlenda ferðamenn um Suðurlandið alla daga. Ég veit að hróður hans hefur borist um allavega fjórar heimsálfur núna. Þeir tala ekkert um annað þessir ferðamenn sem lenda í bílferð hjá honum. Norðurljósin, Gullfoss og Geysir fölna í samanburðinum."

En versti bílstjórinn?

,,Það er ekki gott að segja. Samkeppnin er ansi hörð milli tveggja kollega minna. Það verður framfaraskref fyrir þjóðina alla þegar þeir félagar Máni Pétursson og Orri Rúnarsson komast á sjálfakandi rafbíla í framtíðinni. Það er sem betur fer í styttra í þá tækni en fólk heldur.

Hvað hlustarðu helst á í bílnum?

,,Ég hlusta eingöngu á Xið 977. Það er eina útvarpsstöðin sem hlustandi er á. Það vita það allir."

Hvort myndirðu vilja keppa í kappakstri eða torfæru?

„Kappakstur er klárlega minn tebolli. Að keyra hratt en örugglega er góð skemmtun."

Hver er draumabíllinn?

,,Ég væri rosalega til í að prófa Hyundai Kona electric næst. Það er minnsta kosti alveg klárt að ég hef engan áhuga á bensínbílum lengur. Rafmagnið er framtíðin og framtíðin er núna."

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér