*

Sport & peningar 25. maí 2016

Til mikils að vinna á EM

Með einum sigri landsliðsins í riðlakeppninni má greiða allan launakostnað Knattspyrnusambands Íslands.

Á vef víb er sagt frá því að Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur þegar tryggt sér ríflega milljarð króna með þátttöku sinni á Evrópumótinu í knattspyrnu sem haldin verði í Frakklandi í næsta mánuði. Þrátt fyrir það er þó enn til mikils að vinna ef íslenska landsliði nær frekari árangri á mótinu.

Sigri landsliðið leik í riðlakeppninni skilar það sambandinu 140 milljónum króna. Ef liðið nær jafntefli verður sú upphæð helmingi lægri eða 70 milljónir. Þannig mætti með einum sigri greiða allan launakostnað Knattspyrnusambandsins.

Ef liðið nær þeim útrúlega árangri að komast upp úr riðlinum tryggir KSÍ sér hinsvegar 210 milljónir til viðbótar, 350 til ef við komumst í 8 liða úrslit og 560 fyrir undanúrslit.

4 milljarðar í kassann

Það  lið sem lendir í öðru sæti á mótinu hlýtur 700 milljónir króna fyrir tapið í úrslitaleiknum en Evrópumeistararnir munu hljóta 1.120 milljónir.

Landslið sem vinnur alla sína leiki á mótinu fær því 3.780 milljónir króna í verðlaunafé. Í vef víb segir að ef íslenska landsliðið nyndi ná þessum ótrúlega árangri megi búast við að aðildarfélögin fari fram á að verðlaunaféð verði látið renna til þeirra. Um væri að ræða 25 falda þá upphæð sem KSÍ greiddi í styrki og framlög til aðildarfélaga á síðasta ári. 

Nánari upplýsingar um fjármál í fótbolta má finna á fótboltasíðu VÍB, www.vib.is/fotbolti.

Stikkorð: Íslands  • Knattspyrnusamband