*

Sport & peningar 30. apríl 2019

Tilnefnd fyrir herferð um Enska boltann

Auglýsingaherferð The Engine tilnefnd til evrópskra leitarverðlauna í flokki bestu herferða fyrir minnsta fjármagnið.

Íslenska fyrirtækið The Engine, sem sérhæfir sig markaðssetningu á netinu, hefur verið tilnefnt til alþjóðlegu verðlaunanna The European Search Awards. Tilnefningin er fyrir stafræna auglýsingaherferð sem The Engine vann fyrir Enska boltann á Stöð 2 Sport. The Engine er dótturfyrirtæki auglýsingastofunnar Pip­ar\TBWA.

The European Search Awards eru alþjóðleg auglýsingaverðlaun sem verðlaunar það besta hverju sinni í stafrænni markaðssetningu. Það telur svo sem eins og google auglýsingar, samfélagsmiðla auglýsingar, efnismarkaðssetningu og leitarvélabestun.

Tilnefningin var í flokki bestu herferða með minnsta fjármagnið eða „Best low budget campaign“. Verðlaunaafhendingin fer fram í Búdapest þann 20. júní næstkomandi.

Segir verðlaunin ein þau stærstu í Evrópu

„Það er mjög mikill heiður að fá þessa tilnefningu enda eru þessi verðlaun ein þau stærstu sem völ er á í Evrópu. Það eru margir um hituna og fáir útvaldir og því er þetta mjög mikil viðurkenning fyrir fyrirtækið,“ segir Elvar Páll Sigurðsson, sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu hjá The Engine.

„Í þessari herferð vorum við með sérsniðin skilaboð og myndefni sem miðuð voru á stuðningsmenn ákveðinna liða í enska boltanum. Við töluðum með mismunandi hætti við stuðningsmenn eftir því hvaða liðum þeir héldu með og höfðuðum til þeirra með mismunandi hætti.

Við tókum þetta alla leið og snérist herferðin einnig að miklu leyti um samþættingu á milli miðla og að nýta lendingarsíðu herferðarinnar til þess að fylgja áhugasömum eftir. Þetta vakti góð viðbrögð hjá stuðningsmönnum enska boltans en aðal markmið herferðarinnar var að safna skráningum og áskriftum að Enska boltanum fyrir Stöð 2 Sport.“ 

Einungis á netinu

Hann bætir við að um hafi verið að ræða einungis stafræna herferð þar sem Google, samfélagsmiðlar og vísir.is voru þeir miðlar sem nýttir voru til að ná til markhópsins.

„Árangurinn var mjög góður sem sést einna best á því að við fáum þessa frábæru tilnefningu sem er mikill heiður fyrir okkur og sýnir vel hversu langt við erum komin á alþjóðlegum mælikvarða í stafrænni markaðssetningu,“ segir Elvar Páll.

„The Engine hefur aðstoðað fjölmörg íslensk fyrirtæki við að koma vörum og þjónustu á framfæri á erlendum mörkuðum með sérhönnuðum herferðum. Fyrirtækið hefur unnið til fjölmargra verðlauna erlendis fyrir herferðir sínar.“