*

Menning & listir 15. janúar 2016

Tilraun til að lifa á listinni

Sæmundur Þór Helgason fann ýmsa ávöxtunarmöguleika fyrir styrktarféð sem hann fékk fyrir listasýningu sem hann opnar í kvöld.

Kári Finnsson

„Þetta er í raun tilraun til að lifa á listinni,“ segir Sæmundur Þór Helgason sem opnar í kvöld sýninguna ÁVÖXTUN % í D-sal Listasafns Reykjavíkur. Grunnurinn að sýningunni er fólginn í þóknun listamannsins, þeim 120.000 krónum sem hann fékk í styrk til að halda sýninguna. Í stað þess að nýta hana við gerð sýningarinnar ákvað hann að leita til nokkurra fjármálastofnana til að ávaxta fjármununum.

Þá fór hann til Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankans og Kviku og leitaði eftir ráðgjöf þeirra. Þrír fyrrnefndu bankarnir vísuðu honum á ýmsar fjárfestingaleiðir en Kvika vildi ekki veita honum ráðgjöf vegna þess að upphæðin var ekki nógu há.

Engin niðurstaða enn

Spurður að því hvaða fjárfestingarleið honum þóknaðist mest segir Sæmundur að ekkert sé enn komið í ljós hvað það varðar. „Ég er búinn að vinna úr þessum tilboðum og þau eru síðan kynnt á sýningunni. Það er engin niðurstaða komin,“ segir hann.

Til þess að sleppa við efniskostnað verkanna og til þess að hámarka ávöxtunarféð ákvað Sæmundur að sækja um styrk hjá fyrirtækinu ARTIS sem sérhæfir sig í prenti og merkingum fyrir fyrirtæki. Í staðinn gaf listamaðurinn eftir hluta rýmisins undir auglýsingar fyrirtækisins, en lógó þess þekur stoðsúlur og gólf salarins.

Myndmál markaðarins

í kynningartexta sýningarinnar segir að með þessum hætti ræðst útkoma sýningarinnar af myndmáli markaðarins. „Ég er búinn að taka upp kynningarefni í sýningunni með leikara og fékk lánaða hönnun frá Arion banka til að kynna sýninguna,“ segir Sæmundur. „Þær minna svolítið á auglýsingaherferðir bankanna og umgjörð sýningarinnar hefur fyrir vikið þetta „corporate element““.

Spurður hvernig myndmál markaðarins kemur honum fyrir sjónir sem myndlistarmaður segir Sæmundur að það sé heillandi úr ákveðinni fjarlægð. „Það er svosem ekkert merkilegt þegar maður sér það í daglegu lífi en þegar maður endurvinnur það og horfir á það úr fjarlægð finnst mér það vera merkilegra. Þá verður það að viðfangsefni en ekki þetta hefðbundna áreiti,“ segir hann.

Sýningin ÁVÖXTUN % opnar í D-sal Listasafns Reykjavíkur í kvöld og stendur til 21. febrúar næstkomandi.