*

Bílar 27. júní 2021

Tímalaus töffari

Jeep Wrangler Rubicon 4xe er nýkominn á markað hér á landi í Plug-in hybrid útfærslu.

Róbert Róbertsson

Jeep Wrangler er goðsagnakenndur jeppi sem kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1986. Hann hefur eiginlega ekkert breyst síðan útlitslega. Það má segja að þessi tegund hafi fengið að þróast frá gamla herjeppanum sem Jeep kom fram með fyrst árið 1940 þegar seinni heimsstyrjöldin var hafin.

Útlitið á Jeep Wrangler Rubicon vekur athygli hvar sem hann kemur enda lítur hann út eins og gamall herjeppi en með miklu meiri þægindum innanborðs. Stórir brettakantar og breitt stigbretti á milli þeirra undirstrika útlitið enn frekar. 100% driflæsingar að framan og að aftan, lágt drif og með aftengjanlegri jafnvægisstöng að framan gera Wrangler Rubicon að alvöru jeppa.

373 hestafla tengiltvinnvél
Jeep Wrangler Rubicon 4xe er afar öflugur jeppi. Tengiltvinnvélin sem samanstendur af tveggja lítra bensínvél með forþjöppu og rafmótor skilar alls 373 hestöflum og togið er alls 637 Nm, sem er þrælgott. Bíllinn er aðeins 6,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Þar sem þetta er tengiltvinnbíll kemst hann um 30 km á rafmagninu einu.

Þegar rafmagnið er búið tekur bensínvélin við og hún ein og sér skilar 272 hestöflum. Það er því hörkugott afl í þessum jeppa. Uppgefin eyðsla í blönduðum akstri frá framleiðanda er 3,7-4,1 lítrar. Rauneyðslan er alltaf meiri og hjá mér var hún um 10 lítrar í blönduðum þriggja daga reynsluakstri mínum bæði í þéttbýli og dreifbýli. Og aksturinn var langmestur á bensínvélinni því rafmagnið var búið eftir 30 km akstur. Jeppinn býður upp á vaðdýpt allt að 70 sentímetrum, um 500 kílóa burðargetu og um 1.600 kílóa dráttargetu.

Þægilegur í akstri
Þetta er alvöru jeppi og maður situr hátt og það er mjög gott pláss innandyra. Hátt og lágt fjórhjóladrif, læsingar og alvöru hásingar. Hann er þægilegur í akstri og raunar liprari en hann virðist í fyrstu sýn. Það kemur raunar á óvart hvað hann er þægilegur í borgarsnattið og það er til að mynda þægilegt að leggja honum í stæði.

Þetta er mjög góður ferðabíll og það er hægt að fá mikið út úr honum sem jeppa. Hann var prófaður í léttar torfærur og fór létt með það. Jeppinn er með fína aksturseiginleika en rásar aðeins þegar honum er ekið greitt en það er nokkuð eðlilegt því þetta er jú stór jeppi.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Jeep  • Wrangler  • Rubicon