*

Ferðalög 15. janúar 2013

Tíu bestu borgirnar: Fólkið í Tókýó tollir betur í tískunni

Hvað er skemmtilegra á tímum kulda og myrkurs en að láta hugann reika til annarra landa?

Lára Björg Björnsdóttir

Ekkert segjum við. Bara alls ekki neitt. Skoðum okkur til gleði og upplyftingar tíu hressustu borgir heims samkvæmt CNN

 

10. Barcelona, Spánn

Fyrir utan hvað er gaman að segja „Barþelonna“ þegar fólk spyr hvert þú sért að fara þá er borgin rómuð fyrir fegurð og sérstakan stíl. 

Barcelona er sjötta mest heimsótta borg Evrópu. Göngugötur, barir, gott veður og strendur laða fólk að allan ársins hring. Förum! 

 

9. Höfðaborg, Suður-Afríka

Höfðaborg er í einu orði sagt alveg gríðarlega kúl borg. Flugið er langt svo það eitt og sér er mjög töff. Engin „ein bíómynd og bjór“ og þið eruð lent eins og þegar silast er til Köben eða London í helgarferð og kíkt í H&M og farið í Tívolí. Ónei. Þið eruð á leið til Suður-Afríku. Takk. 

TripAdvisor útnefndi borgina eina af „Top Destination in the World“ árið 2011 og National Geographic valdi ströndina við borgina númer tvö af topp tíu ströndum í heiminum. Enda mörgæsir ráfandi um fólki til yndisauka. 

 

8. Montreal, Kanada

Montreal er djammborg Kanada. Þar má staupa sig 18 ára svo borgin er vinsæll áfangastaður vínþyrstra unglinga frá Bandaríkjunum. 

Þrátt fyrir fimbulkulda yfir vetrarmánuðina er borgin mjög vinsæl allan ársins hring. Borgin hefur evrópskt yfirbragð. Og þrátt fyrir að götuskilti séu bæði á frönsku og ensku er oft erfitt að hitta fólk sem skilur ensku á gönguferðum um gömlu hverfin í miðborginni. Og það finnst fólki mjög kúl. Sem elskar Evrópu. En er samt í Kanada. Og líklega í skreppitúr frá Bandaríkjunum. 

 

 

7. New York City

Hvar á að byrja? Eiginlega má segja að hver einasta gata í þessari einstöku borg sé á pari við skemmtilegustu götu eða miðbæ annarra borga. 

Klisjan „Allir finna eitthvað við sitt hæfi“ á einfaldlega bara við þessa borg. Rétt er að hlífa ykkur við upptalningu á Canal stræti, Litlu Ítalíu og Times Square. Þið vitið þetta allt. En ef þið hafið ekki enn komið til NYC ættuð þið að gera eitthvað í því. Kaninn er líka svo fáránlega skemmtilegur. Takiði börnin með. Kanar elska börn og eru vinir kerrunnar á veitingastöðum.

 

6. París

Borgin er vinsælasta ferðamannaborgin í heiminum enda talin af mörgum vera höfuðborg ástar, matar og tísku. 

Mælt er með að fólk gefi sér tíma í París og einblíni ekki um of á túristastaðina heldur njóti þess sem gerist á göngu um borgina. 

 

 

5. Petra, Jórdanía

Sérstæðasta borgin á listanum er án efa rósrauða borgin Petra. Borgin var uppgötvuð 22. ágúst árið 1812 af Svisslendingnum Johann Ludwig Burckhardt. 

Borgin samanstendur af stórkostlegum byggingum, vatnsveitukerfum og allt í borginni er úr steini, enda þýðir orðið petra klettur. 

Ferðamenn alls staðar að úr heiminum heimsækja borgina, ekki bara miðaldra karlmenn í Indiana Jones dressum. Þó það eitt og sér ætti að vera næg ástæða fyrir saumaklúbba af Arnarnesinu til að bóka sig í hópferð til Petra. 

 

4. San Francisco, Bandaríkin

Hólar og hæðir, Golden Gate brúin, Kínahverfiið og sporvagnar gera San Fransisco að einstakri borg innan Bandaríkjanna. 

Borgin er mekka hippa og lífrænt ræktaðra aktivista svo aðdáendur grænmetis, víðra kjóla og skóleysis ættu að fara í geymsluna, slengja gömlu peace-merkjunum um hálsinn og svífa af stað. 

 

3. Santiago, Síle

Hér er hægt að fara á skíði í ágúst klukkustund fyrir utan borgina. Að auki má finna flest í Santiago sem þið finnið í vandaðri borg í Bandaríkjunum nema allt aðeins betra. 

Hér verður aftur hnykkt á því að það skiptir máli að heimsækja töff staði. Og það er ágætlega töff að segjast vera að fara til Suður-Ameríku. 

 

2. Shanghai

Borgin var kölluð „París austursins“ árið 1930 og er í dag efnaðasta borg Kína. 

Shanghai er Kína með öllu sem því fylgir, mannmergðinni, vextinum og kommúnískum áhrifum en um leið með skvettu af vestrænum áhrifum, frábærum mörkuðum og skemmtanalífi. Auðvelt er að komast um borgina á leigubíl, mótórhjóli eða reiðhjóli - nema þú veljir að þvælast um ganga og ranghala verslunarmiðstöðva sem sumar eru neðanjarðar.

 

1. Tókýó, Japan

Og þá er komið að fyrsta sætinu, hressustu borginni í veröldinni: Tókýó.

Viðskiptablaðið var svo heppið að ná tali af almannatenglinum Andrési Jónssyni sem eyddi jólunum í borginni: „Tókýó er öruggasta, skipulagðasta og margslungnasta 15 milljón manna borg í heimi þar sem fólkið er kurteist, fallegt og tollir betur í tískunni en nokkrir aðrir jarðarbúar.“ Og þar höfum við það. 

Stikkorð: útlönd  • Ferðalög