*

Hitt og þetta 6. júlí 2013

Tíu leiðir til að gera sumarið rómantískara

Sandur á svölunum, skreytt grilláhöld og þitt eigið þjóðhátíðarlag eru allt prýðisleiðir til að heilla betri helminginn á sumrin.

Lára Björg Björnsdóttir

Það getur reynt á hugmyndaríkustu ástarpunga að keyra rómantíkina í gang þegar sólin skín allan sólarhringinn og gamla góða kertaljósa-jólaseríutrikkið virkar ekki. En örvæntið eigi, hér koma tillögur handa ykkur sem viljið elska. Og vera elskuð. Gjöriði svo vel.

1. Þitt eigið Balí. Stráðu rósablöðum og ljósum sandi á pallinn/svalirnar/gluggakistuna hjá þér. Tíndu skeljar og raðaðu þeim í kringum rósablöðin. Kauptu lítinn dótagítar og spilaðu eitthvað létt þegar betri helmingurinn kemur bugaður heim úr vinnunni. Hér eru sundföt lykilatriði.

2. Tengslanetið. Þekkir þú mann sem þekkir mann sem þekkir mann? Fáðu Vogabæ til að framleiða ídýfudós en í staðinn fyrir .„Kryddblanda“ lætur þú áletra: „Viltu giftast mér eða?“

3. Minningar. Taktu öll grilláhöldin á heimilinu og bittu bleikan borða utan um hvert og eitt. Hengdu síðan staf á endann á hverjum borða og stafaðu eitthvað fallegt eins og „m-a-n-s-t-u-h-v-a-ð-va- r-g-a-m-a-n-þ-a-r-n-a-þ-e-g-a-r-v-i-ð-f-ó-r-u-m-í-b-ú-s-t-a-ð-in- n-í-f-y-r-r-a-o-g-g-r-i-l-l-u-ð-u-m? Ef þú hefur tíma, raðaðu upp litlum böngsum í kringum áhöldin. Ef ástin þín á ekki nógu mörg grilláhöld má binda borða utan um alla sokkana hans/hennar. Eða allar DVD-myndirnar.

4. Komdu ástinni á óvart. Ef farið er í útilegu er gamla góða kamartrikkið alltaf gott. Þegar ástarpungurinn fer á kamarinn skaltu hendast af stað og ná í rauða seríu (batteríseríur fást í öllum helstu draslbúðum) og fiðrildi á nálum (fást í Rúmfó í nokkrum litum). Hengdu seríuna upp inni í tjaldinu og stingdu fiðrildunum ofan í grasið allt í kringum tjaldið. Ástin þín mun snúa aftur að tjaldinu og ganga fram á rauðglóandi fiðrildatjaldbúðir. Þetta virkar hinsvegar ekki ef viðkomandi er með fiðrildafóbíu.

5. Tónlist. Búðu til þitt eigið þjóðhátíðarlag. Fáðu börnin til að æfa lagið á blokkflautur sem þau síðan flytja á sjálfan frídag verslunarmanna. Þetta slær sérstaklega í gegn ef maki þinn er raunverulegur verslunarmaður.

6. Út að borða. Næst þegar þið parið farið í fjallgöngu skaltu vera búin(n) að undirbúa hlutina. Komdu fyrir litlu súkkulaðistykki, vínflösku, tveimur glösum og lítilli körfu með öðru góðgæti úti í laut og skelltu fallegum dúk á stóran stein á leið upp á fjallið. Þessa dýrð gangið þið síðan fram á. Til að fá frið fyrir öðru fjallgöngufólki sem á leið hjá (þetta á sérstaklega við um Esjuna) skaltu vera búin að stinga niður skiltum allt í kringum ykkur sem á stendur „Usss“ og „Sýnið náunganum þá virðingu að láta hann í friði“ og “Tilfinningalegt svigrúm óskast” og „Hér fer fram bónorð, myndataka bönnuð.“

7. Skartgripir. Kauptu eitthvert almennilegt skart og skreyttu það með einhverju persónulegu. Taktu til dæmis demantshring og dýfðu honum ofan í málningu (uppáhaldslit makans) og þrykktu hringnum síðan ofan í gips sem er vafið í þæfða ull. Búðu til fallega öskju utan um djásnið og láttu ástina þína opna gjöfina á næsta fótboltaleik hjá Fylki (eða bara einhverju öðru liði, liðið sjálft er ekki aðalatriðið en bara ekki velja eitthvert vonlaust lið).

8. Leikir. Lokaðu facebook síðu þinni og láttu makann gera það sama og settu status (taggaðu makann): „Hver þarf facebook á meðan við höfum ástina? Farin í facebook pásu! hjarta-hjarta-hjarta.“ Að hætta á facebook vekur alltaf athygli og hver vill ekki smá athygli ofan á ástina? Síðan er alltaf hægt að fara aftur á facebook og blasta þá fallegri paramynd af ykkur saman.

9. Stjörnuspá. Finndu stjörnuspá dagsins fyrir ástina þína. Taktu hvert orð í stjörnuspánni og tjáðu það með líkamanum. Láttu ástina þína horfa á þig dansa stjörnuspána og þar með sýnir þú henni hvað hún og hennar framtíð skiptir þig miklu máli.

10. Blekkingar. Vertu búin að sækja bækling með heimsreisupakka. Fimm vikna ferð þar sem flogið verður á milli hverrar paradísarinnar á fætur annarri. Segðu síðan: „Bara grín!“ þegar maki þinn er dansandi um stofuna með þig í fanginu gólandi sturlaður af gleði yfir tilvonandi „utanlandsferð“. Ef maki þinn heldur áfram að faðma þig þrátt fyrir djókið þá elskar hann þig. Ef ekki, þá veistu það. 

Stikkorð: Vonbrigði  • Örvænting  • Rómantík  • Ást