*

Hitt og þetta 11. desember 2014

Tíu verstu mistökin í líkamstjáningu

Ekki hengslast áfram eins og tuska eða taka aumlega í höndina á viðmælandanum á meðan þú horfir niður í gólf og fiktar í hárinu þínu.

Þau eru af mörgum gerðum mistökin sem fólk getur gert við líkamstjáningu, hvort sem það er í vinnu eða annars staðar. Forbes hefur tekið saman lista yfir þau tíu verstu.

1. Að forðast augnsamband

Ef maður horfir ekki í augun á viðmælandanum getur það borið þess merki að maður sé að blekkja hann eða beri takmarkaða virðingu fyrir honum.

2. Að hokra

Aum líkamsstaða gefur í skyn að maður hafi lítið sjálfstraust eða litla orku. Ekki hengslast áfram eins og tuska og réttu úr þér.

3. Aumt handaband

Veikt handaband getur gefið í skyn að maður sé valdlítill. Of sterkt handaband getur hins vegar látið mann líta út fyrir að vera aggresívur.

4. Krosslagðar hendur

Að sitja með krosslagðar hendur lætur mann líta út fyrir að vera lokaður og gefur í skyn áhugaleysi gagnvart öðru fólki.

5. Að horfa niður í gólf

Ef maður horfir niður í gólf á meðan maður spjallar við einhvern lítur maður út fyrir að vera feiminn eða líða óþægilega.

6. Að halla líkamanum frá viðmælandanum

Haldi maður mikilli fjarlægð frá viðmælandanum og hallar sér um leið frá honum getur hann túlkað það sem svo að maður vantreysti honum eða sé áhugalaus gagnvart honum.

7. Að fikta í hári

Ef maður er í sífellu að fikta í hárinu á sér eða naga neglur lítur maður út fyrir að vera stressaður.

8. Að fara inn á persónusvæði annarra

Sé maður nær viðmælandanum en hálfum metra frá honum eða ef maður notar eigur þeirra eða skrifstofusvæði eins og það sé manns eigið sýnir maður viðmælandanum vanvirðingu.

9. Að líta í sífellu á klukkuna

Ef maður lítur í sífellu á klukkuna meðan maður spjallar við einhvern lætur maður í ljós vanvirðingu eða hroka gagnvart viðmælandanum.

10. Að hafa uppi vanþóknunarsvip

Setji maður í sífellu upp vanþóknunarsvipi, jafnvel þótt það sé ómeðvitað, kunna aðrir að túlka það sem svo að maður sé óhamingjusamur eða ósáttur.