*

Ferðalög 18. október 2012

Tjaldað á tunglinu

Ferðaskrifstofan New Moments var stofnuð árið 2008 og voru því fyrstu verkefnin að takast á við efnahagshrun og eldgos.

Það hljómar ótrúlega að tjalda í sprungu á Þingvöllum eða lengst uppi á jökli. Það hika þó systurnar í New Moments ekki við að gera og skipuleggja ferðir, uppákomur, veislur og annað, hvar sem verða vill. „Er ekki vel viðeigandi að við hittumst á Slippbarnum, það er nú hluti af hóteli líka,“ segir Sigrún Nikulásdóttir, einn eigenda, þegar blaðamaður hringir til að óska eftir viðtali. Skrifstofa New Moments var varla í boði. „Það sést varla í gólfið, við höfum staðið í stórræðum við að undirbúa komu hóps hingað,“ segir Sigrún sposk.

Hamfarir í dularbúningi

Ferðaskrifstofan New Moments var stofnuð á því örlagaríka ári 2008. Sigrún Nikulásdóttir á þriðjung í fyrirtækinu á móti systur sinni Sólveigu Nikulásdóttur og Guðmundi Ásgeirssyni framkvæmdarstjóra. Sigrún er þó enginn nýgræðingur í bransanum því hún átti áður hlut í jeppaferðafyrirtæki sem stofnað var árið 1996. „Við stofnuðum fyrirtækið árið 2008. En þá kom hrun og svo eldgos þannig að þetta tekur sinn tíma. En við höfum verið í stöðugum vexti sem heldur vonandi áfram.“ Sigrún bætir við að þessir upphafshikstar hafi sjálfsagt bara verið til góðs í stóru myndinni. „Það er svo skrýtið með þetta eldgos að ég hugsa að þetta hafi haft mjög góð áhrif seinna meir, sé horft til landkynningarinnar. Hrunið gerði það jafnvel líka á sinn hátt, til dæmis með lægra gengi krónunnar, fyrir okkur í ferðaþjónustunni. Svo þetta voru hamfarir í dularbúningi“.

Skapa augnablik

„Við erum ferðaskrifstofa, mest fyrir erlenda ferðamenn. En við bjóðum líka upp á allskonar ferðir; leikjadaga, hópefli fyrir fyrirtæki og fleira sem íslensk fyrirtæki geta líka nýtt sér,“ segir Sigrún. Fyrirtækið byggir annars mikið á svokölluðum hvataferðum fyrir erlend fyrirtæki, en það er þegar fyrirtæki bjóða starfsmönnum sínum erlendis af hinum ýmsu tilefnum, til hvatningar, verðlauna, árshátíða og annars. „Við gerum allt frá því að skipuleggja einn dag eða veislu í að sjá um alla ferðina í heild sinni,“ bætir hún við. „Við leggjum áherslu á það í okkar ferðum að byggja á þjóðlegum og frekar menningarlegum nótum og tvinnum það inn í okkar upplifanir. Þangað sækjum við líka nafnið á fyrirtækinu, því við vinnum í raun við að skapa ákveðin, og vonandi eftirminnileg, augnablik fyrir fólk.“ Sigrún segir erlendar hópferðir stærstan hluta starfseminnar og eru Evrópubúar þar algengustu gestirnir. Ólíkt mörgum öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum er sumarið yfirleitt rólegt, enda sumarfrí í fyrirtækjum. „Þetta er vissulega árstíðabundið en það er mest að gera upp úr janúar og fram á sumar,“ segir Sigrún.

Eins og veisla á tunglinu

Aðspurð um verkefnin sem standa upp úr minnist Sigrún brúðkaups sem haldið var í sumar. „Við keyptum á síðasta ári ný veislutjöld sem eru ólík því sem hér hefur verið áður. Eitt slíkt var notað í brúðkaupi bandarískra hjóna við Kleifarvatn í sumar. Þau komu til okkar í gegnum ferðaskrifstofuna Atlantik og við aðstoðuðum við sjálfa athöfnina. Þetta var ótrúlega fallegt og framandi. Tjaldið er svart og því var tjaldað við Kleifarvatn. Umhverfið var svartur sandur og hraun svo þetta næstum eins og að vera í veislu á tunglinu,“ segir Sigrún. Hún segir tjöldin þola næstum hvað sem er. „Undarlegasti staðurinn sem við höfum hingað til tjaldað á er niðri í Hvannagjá á Þingvöllum. Það var erlent fyrirtæki sem var með veislu þar,“ bætir hún við og hlær þegar blaðamaður spyr hvort aðstæður verði ekki oft erfiðar á kalda Íslandi. „Við strengjum tjaldið upp og setjum undir það súlur. Það er svart og heldur hita vel en svo kyndum við það auðvitað upp. Við leggjum í það gólf, fáum fyrirtæki til að sjá um lýsinguna og svo er borðum, stólum og öðru tilheyrandi komið fyrir. Við erum meira að segja með sér tjald fyrir kokkinn, ef það á við.“

Heilsulandið Ísland

Um framtíðina segir Sigrún best að taka eitt skref í einu. „En með aukningu síðustu ára þá held ég að þetta muni bara stækka,“ segir Sigrún. Hún segir að áherslan verði áfram á sömu grunnstoðir en sér vaxandi tækifæri í svokallaðri heilsutengdri ferðaþjónustu. „Ég hef trú á því að eftir nokkur ár þá verði þetta stór hluti af íslenskri ferðaþjónustu. Við eigum allt sem þarf til að bjóða heilsutengda ferðaþjónustu á heimsmælikvarða. Við höfum heitar laugar, hreint vatn, hreint loft, frelsi og villta náttúru. Svo ekki sé talað um matinn.“ Utan þessa leggja New Moments vaxandi áherslu á bæði innlend og erlend brúðkaup og nýta til þess nýju tjöldin. „Við getum líka boðið íslenskum fyrirtækjum upp á heilmargt. Við getum haldið veislur, árshátíðir og skipulagt starfsdaga, t.d. með ratleikjum um borgina, hellaferðum og raunar hverju sem er. Það fer bara eftir því hvað fyrirtækin vilja.“