*

Hitt og þetta 24. júlí 2007

TM Software orðið fullgildur samstarfsaðili Cisco

TM Software hlaut nýverið samstarfsgráðuna Cisco Premier partner en Cisco er leiðandi aðili í búnaði fyrir netkerfi, bæði nærnet og víðnet. Í tilkynnigu segir að þetta er í takti við aðrar þekkingargráður sem starfsmenn TM Software hafa sótt sér en fyrirtækið hefur haft það sem hluta af sinni markmiðasetningu að starfsmenn séu með fullgildar þekkingargráður frá helstu og fremstu fyrirtækjum heims á sviði upplýsingatækni.

Netvinna er einn stærsti þátturinn í daglegum rekstri nútíma fyrirtækja, hvort sem þau eru stór eða smá, og er búnaður frá Cisco notaður til að búa til netlausnir sem gera samskipti yfir netið möguleg og auðveldar þar með alla upplýsinganálgun, innan sem utan fyrirtækisins.

Til að mynda er allt kjarnanetkerfi TM Software byggt á Cisco búnaði og því nauðsynlegt að tryggja að starfsmenn búi yfir rekstrarþekkingu á þeim búnaði sem og hafi aðgengi að bestu fáanlegu sérfræðingum á hverjum tíma.

Í tilkynningunni segir að TM Software er eitt af fáum fyrirtækjum á Íslandi sem hlotið hafa Cisco partner vottun og er það mikill heiður að geta bætt henni við hóp annarra þekkingarviðurkenninga fyrirtækisins.

?Cisco og lausnir þeirra eru með yfirburða markaðsstöðu í netlausnum og -kerfum. Markmið TM Software er að halda áfram á þessari braut og efla enn frekar þekkingu starfsmanna og fá hana vottaða, viðskiptavinum sínum til hagsbóta. Starfsmenn TM Software hafa lengi búið að mikilli netþekkingu og fer áhugi fyrirtækja á að sækja þessa þekkingu vaxandi en TM Software er óháður aðili á markaðnum. En þetta er vonandi bara byrjunin á okkar samstarfi við Cisco.? sagði Árni Jón Eggertsson, yfirmaður búnaðarlausnasviðs TM Software, eftir að vottunin leit dagsins ljós.

?Í framhaldinu getum við sérhæft okkur enn frekar á ákveðnum sviðum sem tryggir viðskiptavinum okkar enn betri þjónustu en áður?.