*

Bílar 29. maí 2013

Töffaralegur sportbíll með vængjahurðum

SLS AMG Black Series frá Mercedes-Benz fær seint umhverfsiverðlaun því bensíneyðslan er frá 13,7 lítrum á hundraðið.

Róbert Róbertsson

Nýr Mercedes-Benz SLS AMG Black Series er sannarlega töffaralegur sportbíll. Bíllinn er að fá fína dóma víða enda hörkubíll með aflmikla 6,2 lítra V8 vél sem er ein sú besta sem í boði er fyrir bíl í heiminum í dag.

Vélin skilar alls 622 hestöflum og bíllinn er aðeins 3,6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Sportbíllinn kostar sitt og í Bretlandi er hann fáanlegur fyrir andvirði rétt rúmlega 40 milljóna króna.

Búið er að létta þennan nýja bíl um 70 kíló miðað við forverann þökk sé meira áli sem notað er í smíði bílsins. SLS AMG Black Series fær þó seint umhverfsiverðlaun en koltvísýringslosunin er 321 g/km og bensíneyðslan er frá 13,7 lítrum á hundraðið.

En flottur er hann og AMG útfærslan frá heimsins elsta bílaframleiðanda í Stuttgart bregst ekki frekar en fyrri daginn. Og vængjahurðirnar eru magnaðar!

Sjá má myndband af gripnum hér.

Stikkorð: Mercedes Benz