*

Bílar 17. júní 2017

Töffaralegur sportbíll

Mercedes-Benz C-Class Coupe er hörkugóður akstursbíll með línurnar í lagi.

Róbert Róbertsson

Mercedes-Benz hefur komið fram með marga nýja og skemmtilega bíla á undanförnum misserum. Nýjasta afurðin úr sportbíladeildinni hjá þýska lúxusbílaframleiðandanum er C-Class Coupe sem er er sportútgáfan af C-línunni. Bíllinn kom til landsins nýverið og var tekinn í reynsluakstur um höfuðborgina og nærliggjandi sveitir.

C-Class Coupe er með línurnar í lagi. Hann er fallega hannaður og í með hallandi afturlínu, hið svokallaða coupe lag, í anda sannra sportbíla. Að framan er hann nokkuð líkur hefðbundnum C-Class, sem kom nýr og endurbættur árið 2014. Um er að ræða fjórðu kynslóð C-línunnar. En þar lýkur svolítið samanburðinum því við tekur mun sportlegri bygging í þessum bíl. Hann er tveggja dyra í stað fjögurra dyra í hefðbundinni C-línu og afturendinn kemur með hallandi þaklínu sem gerir hann mjög sportlegan í hönnun eins og áður segir. Afturendinn er mjög svalur og tryggir það að eftir bílnum er sannarlega tekið. Og sú var raunin í reynsluakstrinum. Augngotin komu frá fólki á öllum aldri hvort sem ekið var um miðborgina eða á Laugarvatni.

Mjög flott innanrými

Innanrýmið er mjög flott og vandað. Hann sver sig þar í ætt við C-línuna. Silfurklæddar lofttúðurnar eru áberandi og miðjustokkurinn smart og laus við gírstöng því hún er í hægri stönginni út frá stýrinu eins og í öðrum nýjum Mercedes-Benz bílum. Þetta tekur smá tíma að venjast en er á margan hátt sniðug pæling hjá lúxusbílaframleiðandanum. Aðgerðarskjárinn er fínn og stýrið sportlegt og þægilegt. Klukkan neðarlega á miðjustokknum gefur bílnum klassískan blæ. Sætin eru sérstök sportsæti og afar gott að sitja í þeim. Í hliðunum er sætastaðan stillt með flottum fítusum.

Aftursætin eru tvo þannig að mest fjórir komast fyrir í bílnum. Það þarf að klöngrast afturí en þegar þangað er komið er ágætis pláss þótt lág þaklínan að aftan minnki höfuðplássið talsvert og sérstaklega ef menn eru yfir 175 cm. Litlir gluggar að aftan skerða einnig útsýnið talsvert en einhverju verður að fórna fyrir sportbílalúkkið. Og sportbílar eru ekki búnir miklu skottrými bara svo það sé á hreinu og það á einnig við í þessum bíl. Hæpið að fara á honum í Costco nema þú ætlir að kaupa tannkremskassa.

Hjartslátturinn örari

Það er alltaf sérstök tilfinning að aka sportbíl. Sitja lágt og finna spennandi aksturseiginleikanna til hins ítrasta. Finna aflið í vélinni og öran hjartsláttinn þegar gefið er í. Það er þannig með C-Class Coupe. Þetta er hörkugóður akstursbíll. Hann liggur mjög vel á veginum þótt á honum sé tekið. Það er hægt að kasta honum allhressilega í beygjur án þess að hann missi takið. Hann er mjög þéttur í alla staði og stýringin mjög góð.

Það er gaman að taka á bílnum. Hann þolir það vel enda töffari fram í fingurgóma. Hámarkshraðinn er 235 km/klst og þótt ég egni engan til að fara svo hratt nema þá á Autobahn í Þýskalandi þá er gaman að gefa bílnum aðeins inn. Annað er bara ekki í boði.

7,5 sekúndur í hundraðið

Bíllinn er með 2 lítra bensínvél sem skilar 184 hestöflum og togið er 300 Nm. Hann er 7,5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið sem er prýðilegt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Mercedes-Benz  • bílar