*

Ferðalög & útivist 3. apríl 2021

Töfrandi slóðir Tómasar

Tómas Guðbjartsson segir lesendum frá töfrandi náttúruperlum sem vert er að heimsækja, einni í hverjum landsfjórðungi.

Andrea Sigurðardóttir

Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir og fjallaleiðsögumaður, hefur ferðast víða um fáfarnari svæði landsins. Hann segir lesendum frá töfrandi náttúruperlum sem vert er að heimsækja, einni í hverjum landsfjórðungi: Kaldbaki á Vestfjörðum, Efri-Hveradal í Kverkfjöllum, Brunnhorni og Jarlhettum. Fjallað er um málið í sérblaðinu Ferðalög & útvist, sem fylgdi Viðskiptablaðinu og er opið öllum til lestrar.

Hinn íslenski Batman

Brunnhorn líkist Batman séð úr Papafirði. VB Mynd/Tómas Guðbjartsson

Á Stokksnesi, skammt frá Höfn í Hornafirði, er fjara sem verið hefur vinsæl meðal ferðamanna. Fjaran fræga liggur sunnan við Vestrahorn en að sögn Tómasar eru færri sem vita hve skemmtilegt er að skoða Vestrahorn norðanmegin. „Austasti tindur Vestrahorns nefnist Brunnhorn en hann minnir óneitanlega á Batman, sérstaklega þegar horft er til þess úr Papafirði. Undir Brunnshorninu er bærinn Syðri-Fjörður, sem er einn dimmasti staður landsins en dagsbirtu nýtur þar hvar minnst við á Íslandi í klukkutímum talið vegna skugga frá fjöllum Vestrahorns. Við bæinn er hægt að skilja bílinn eftir og þræða skemmtilegar gönguleiðir, til dæmis meðfram Papafirði út að Papósi. Hægt að ganga hringinn í kringum Brunnhorn og er gengið í fjörunni út fyrir Brimnestanga og yfir skarð aftur ofan í Papafjörð. Frá Syðri-Firði er jafnframt skemmtileg 14 km löng gönguleið þar sem gengið er um skarð sem nefnist Kex yfir í Hornsvík, en sú leið er ekki fyrir lofthrædda. Frá Hornsvík er gengið rangsælis út fyrir Hafnartanga og Brimnestanga, fyrir Brunnhorn, fram hjá Papósi og loks aftur að Syðri-Firði. Á þeirri leið fer maður um hina frægu fjöru og nýtur Brunnshornsins í návígi. Svo er vert að minnast á gönguleiðina upp á hæsta tind Vestrahorns, Klifatind (890 mys) en ólíkt flestum tindanna er sá fær almenningi."

 

Útsýnisperla á Vestfjörðum

Skarfar í fjörunni við Hringsdal virða fyrir sér Kaldbak hinum megin Arnarfjarðar. VB Mynd/Tómas Guðbjartsson

Kaldbakur (998 mys) er hæsta fjall Vestfjarða. Tómas hefur gengið Kaldbak fjölmörgum sinnum og segir fjallið aðgengilegt og flestum fært, gangan taki einungis um fjóra tíma úr Kvennaskarði. Hann segir gríðarlega fallegt útsýni um Vestfirði af tindinum, þá sérstaklega ofan í firðina sem standa honum næst, Dýrafjörð og Arnarfjörð. „Skemmtilegast þykir mér að hefja göngu við mynni Fossdals í Arnarfirði og ganga jeppaslóðann upp í Kvennaskarð og þaðan eftir þægilegum stíg á tindinn, en einnig er hægt að aka jeppaslóðann og ganga úr skarðinu. Það er jafnframt skemmtilegt að ganga eða fara á fjallahjóli frá Kirkjubóli í Dýrafirði og fylgja sama jeppaslóða í suður. Efsti hluti fjallsins reynir ögn á, enda þarf að þræða stutt klettabelti, en gangan telst þó ekki flókin. Yfirleitt er snjór á toppnum en almennt er ekki þörf á broddum, ísexi eða þess háttar. Toppur Kaldbaks er sléttur, en þar verður að vara sig á mögulegum hengjum."

Andstæður elds og íss

Efri-Hveradalur í Kverkfjöllum. VB Mynd/Tómas Guðbjartsson

Kverkfjöll eru í sérstöku uppáhaldi hjá Tómasi og hefur hann komið þangað yfir 50 sinnum. Gangan er krefjandi, getur tekið um 12 tíma og gott fjallaform því nauðsynlegt auk jöklabúnaðar og leiðsagnar staðkunnugra. „Ég geng yfirleitt yfir Kverkjökul, sem er með fallegustu skriðjöklum á Íslandi. Á jöklinum er stefnt á vestari klett Kverkarinnar, en þar er krækt fyrir sprungur á leið á Löngufönn. Á milli sigkatlanna tveggja er skáli Jöklarannsóknafélagsins og á nálægum hrygg vestan skálans er útsýnið stórbrotið. Þaðan sést ofan í Efri-Hveradal og í norðri má sjá einn stærsta gufuhver landsins niðri í dalnum á milli litríkra klettadranga. Í gegnum gufuna blasir Herðubreið við, ásamt Holuhrauni og Dyngjufjöllum - sannkallað póstkortaútsýni. Ég fer ég yfirleitt ofan í dalinn ef hópurinn er sprækur og veður gott. Það er stórkostleg upplifun að koma í Efri-Hveradal, en þar eru gríðarlega stórir og síbreytilegir hverir alveg við jökulröndina. Andstæður elds og íss gerast ekki skýrari og þarna er einstök litadýrð."

Tómas Guðbjartsson með sonarsyni sínum, Hlyni Atla. Á derhúfunum stendur  MAKE GLACIERS GREAT AGAIN" sem á okkar ástkæra ylhýra má útleggja sem „gerum jökla stórfenglega á ný" en Tómas er mikill umhverfisverndarsinni líkt og húfurnar bera með sér.


Nánar er fjallað um málið í Ferðalög & útivist, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Hægt er að nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Tómas  • Guðbjartsson