*

Bílar 31. mars 2019

Töfrar við gömlu bjölluna

Jón Axel Ólafsson, útvarpsmaður á K100, hefur talsverðan áhuga á bílum. Uppáhaldsbílinn sem hann hefur átt er VW Bjalla.

Róbert Róbertsson

Jón Axel Ólafsson, útvarpsmaður á K100, hefur talsverðan áhuga á bílum og segir að draumabílarnir hans séu Mercedes Maybach og Mercedes-Benz G-Class. Uppáhaldsbílinn sem hann hefur átt er samt 67 árgerðin af VW Bjöllu.

Jón Axel hefur í nógu að snúast því auk þess að stýra morgunþættinum Ísland vaknar á K100 er hann eigandi og stjórnarformaður bílaleigunnar Lotus Car Rental og eigandi Plentuz fjárfestinga.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

,,Ég held að mesta rómantíkin sé í kringum fyrsta bílinn sem ég átti. Þetta var Volkswagen Bjalla árgerð 1967. Ég vildi óska að ég hefði aldrei selt hann. Það voru einhverjir töfrar við gömlu Bjölluna með gamla útlitinu. Lítil og nett, skítköld á veturna en hún fór alltaf í gang og kom manni alltaf á milli staða."

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

,,Það er nú eiginlega saga að segja frá því.  Það var sumarið 1992 þegar við Gulli Helga vorum saman í útvarpinu. Við áttum að fara með útsendingu norður á Akureyri og fengum vin okkar Jóhannes Stefánsson í Múlakaffi til að skutla okkur á forláta Ford Econoline, sem var rausnarlega innréttaður með ótrúlega flottu hljómkerfi. Við vorum líka með útsendingarstjórann okkar, Bjarna Hauk Þórsson (Hellisbúann) í þessari ferð. Eitthvað af góðum veigum var í kælinum og við hlustunum á Sálina stanslaust í dúndrandi botni alla leiðina og sungum með. Þegar hugsað er til baka leið þetta tiltölulega fljótt en við vorum allir með varanlegan skaða á hljóðhimnunni, raddlausir, og svakalegan hausverk daginn eftir. Þessi ferð gleymist aldrei og það toppar hana ekkert."

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)?

,,Dóttir mín, Kristín Ruth er algjör snilldar ökumaður, traust og ábyggileg."  

En versti bílstjórinn?

,,Það er leigubílstjóri sem ég hef nokkrum sinnum lent á hjá Hreyfli. Hann hefur eitthvað misskilið pedalana. Í hvert skipti sem ég hef lent hjá honum hef ég orðið fárveikur. Hann keyrir með bremsunni og það rykkir og skrykkir í öllum bílnum. Hann bremsar meira að segja þegar enginn bíll er sjáanlegur á Keflavíkurveginum. Hann er örugglega með túrett í tánum."

Hvað hlustarðu helst á í bílnum?

,,K100 eða kántrý á Spotify. Það er engin útvarpsstöð betri og ferskari en 100 þegar maður vill góða tónlist í bílinn. Það er algjört lykilatriði að vera umvafinn góðri tónlist."

Hvort myndirðu vilja keppa í kappakstri eða torfæru?

,,Ég er ekki mikið fyrir hraða þannig að ég myndi velja torfæruna án þess að hugsa mig um. Ég er alveg viss um að ég hefði gaman af að keppa í torfærunni."

Hver er draumabíllinn?

„Mercedes Maybach er draumabíll númer eitt og Mercedes-Benz G Class jeppi væri númer tvö á óskalistanum. Algjörir gullmolar báðir tveir. Þessir tveir myndu sóma sér vel á planinu hvenær sem er. Maður getur alltaf látið sig dreyma en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér."

Nánar má lesa um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.