*

Menning & listir 24. febrúar 2013

Töfraveröld Mary Poppins heillar

Sýningin Mary Poppins var frumsýnd í Borgarleikhúsinu á föstudaginn og er sýning sem hentar allri fjölskyldunni.

Edda Hermannsdóttir

Það má með sönnu segja að það hafi verið töfrar í loftinu á sýningunni Mary Poppins í Borgarleikhúsinu. Sýningin sem byggð er á sögum P.L. Travers og kvikmynd Walt Disney tryggir leikhúsgestum huggulega gæsahúð. Þar skiptir aldur leikhúsgesta engu máli.

Sagan er falleg og sígild og fjallar um hina heillandi Mary Poppins sem kemur inn á heimili Banks fjölskyldunnar þar sem ekki er allt með felldu. Mary Poppins nær að breyta öllu í skemmtilegt ævintýr og það var sérstaklega gaman að sjá stjörf andlit ungra leikhúsgesta þegar allt lifnaði við á sviðinu og sviðið fylltist af söngvurum og dönsurum.

Það sem mér fannst standa upp úr voru gæði dans- og söngatriða á sviðinu. Jóhanna Vigdís Arnardóttir fer á kostum sem Mary Poppins með sinn söng og sitt töframeðal og Íslenski dansflokkurinn setur punktinn yfir i-ið. Það að sjá um 20-30 manns syngja og dansa, dansa jafnvel upp um veggi er hreint út sagt magnað! Fyrir utan nú krakkana sem eru á sviðinu mest allan tímann og gera þetta einstaklega vel. 

Þegar ég spurði hinsvegar fimm ára dóttur mína og frænku hennar hvað þeim fannst standa upp úr var svarið eftir smá upptalningu: Æji, bara allt!. Þetta er því sýning fyrir börn og fullorðna með skemmtilegum og fallegum boðskap. Það er ágætt að búa sig undir það fyrir minnstu gestina að sýningin er rúmir þrír tímar en þessir þrír tímar eru fljótir að líða í töfraveröldinni.

Edda Hermannsdóttir, blaðamaður á Viðskiptablaðinu. 

Stikkorð: Mary Poppins