*

Matur og vín 1. mars 2016

Tökum okkur ekki of hátíðlega

Auður Ögn Árnadóttir opnaði 17 Sortir 17. október síðastliðinn. Auður á fyrir Salt Eldhús sem er kennslueldhús fyrir sælkera.

Eydís Eyland

Auður er ansi frjó þegar kemur að mat og bakstri og í samtali okkar kemur fram að hún er með margar hugmyndir í kollinum. 17 Sortir eru algjörlega ótengdar rekstrinum á Salt Eldhúsi en Auður sér alfarið um reksturinn og fjármagnar hann sjálf. Eftir vinnu hitti Auði í litlu dásamlegu kökusjoppunni hennar að Grandagarði til að fræðast um fyrstu kökusjoppuna á Íslandi.

Auður, hvaðan kemur hugmyndin að kökusjoppunni og hvaðan dregur hún nafn sitt?

„17 Sortir eru mitt hugarfóstur og smíð en ég hef sérlega gaman af því að setja saman konsept; búta saman útlit, bragð, stemningu og yfirbragð þar til ég er komin með eitthvað heilsteypt. Ég hef auðvitað fengið einhverjar hugmyndir erlendis frá en ég er í raun að steypa saman evrópskri og bandarískri kökumenningu með áhrifum frá Íslandi. Allt í einum dásamlegum graut.

Við köllum okkur kökusjoppu því við tökum okkur ekki alltof hátíðlega, ég er í raun að þýða beint heitið „Cake shop“ eins og þær heita í Bandaríkjunum. Ég fékk svo að láni þetta nafn, 17 Sortir, frá Halldóri Laxness úr bókinni Kristnihald undir jökli. Í bókinni er persóna sem heitir Hnallþóra sem bakaði mjög mikið og bar á borð fyrir gesti og þar þótti ekkert fínt undir sautján sortum. Við erum svo ekki síðri en Hnallþóra því við bjóðum upp á 17 sortir á hverjum degi. Þó er mismunandi eftir dögum hvað er í boði og engir dagar því eins. Við erum stöðugt að taka á móti nýjum gestum og viljum hafa í það minnsta 17 sortir boði eins og Hnallþóra.“

Þú leggur upp úr að baka eins og „amma“, hvað meinarðu með því?

„Það sem ég meina með því að baka eins og amma er að við bökum í litlum skömmtum í einu úr alvöru heimilislegum hráefnum. Við notum aldrei kökumix, smjörlíki eða dropa. Ef við segjum að það sé romm eða viskí í kökunum okkar þá er alvöru romm eða viskí í kökunum en ekki eftirlíkingar eða dropar. Sem dæmi þá notum við ekki vanilludropa, við notum vanilluþykkni sem er búið að vinna úr vanillustöngum. Við bökum frá grunni í litlum skömmtum og hefur baksturinn okkar oft útlit og bragð heimabaksturs því við viljum staðsetja okkur þar.“

Nánar er rætt við Auði í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.