*

Sport & peningar 30. október 2013

Tólf fjárfestahópar hafa sett sig í samband við Beckham

Beckham vill stofna nýtt knattspyrnulið í Miami.

David Beckham hefur ákveðið að stofna nýtt knattspyrnulið í úrvalsdeildinni í Bandaríkjunum. Aðsetur liðsins verður í Miami í Flórída. Hann mun greiða úrvalsdeildinni 25 milljónir dala, eða þrjá milljarða króna, fyrir að fá að setja liðið upp. 

Beckham sagðist vera mjög spenntur fyrir framtíð Miami þegar hann kom til Flórída í júní. Ekki hefur verið lokið við gerð neinna samninga en BBC segir að 12 mögulegir fjárfestahópar hafi sett sig í samband við Beckham vegna mögulegra fjárfestinga. Nítján lið eru starfandi í úrvalsdeildinni en ætlunin er að fjölga þeim upp í 24 fyrir árslok 2020. 

David Beckham á sjálfur glæstan feril í knattspyrnu að baki. Þekktastur er hann fyrir að hafa leikið með Manchester United, Real Madrid og LA Galaxy. 

Stikkorð: David Beckham