*

Bílar 22. maí 2021

Tólf koma til greina sem Bíll ársins

Bandalag íslenskra bílablaðamanna hefur ákveðið hvaða tólf bílar geta hreppt hið eftirsótta Stálstýri.

Róbert Róbertsson

Bandalag íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) hefur valið 12 bíla í úrslit fyrir Bíl ársins. Ekkert val var á síðasta ári sökum Covid-19 og því sérlega mikil spenna í loftinu í ár hver verður valinn Bíll ársins.

Forvalsnefnd BÍBB hefur verið á fleygiferð að reynsluaka fjölmörgum nýjum bílum á undanförnum mánuðum og nú hafa 12 bílar verið valdir í úrslit í fjórum flokkum.

Þeir bílar sem komust í úrslit eru Opel Corsa e, Toyota Yaris og Honda E í flokki minni fólksbíla. Í flokki stærri fólksbíla komust Peugeot e-2008, Volkswagen ID 3 og Opel Mokka í úrslit. Í flokki minni jepplinga/jeppa komust MG EHS PHEV, Skoda Enyaq EV og Volkswagen ID 4. Loks komust Kia Sorento, Ford Explorer og Land Rover Defender í úrslitin í flokki stærri jepplinga/jeppa.

Lokaprófanir fara fram á næstu dögum til að ákveða hvaða bíll hlýtur nafnbótina Bíll ársins á Íslandi. Sá bíll sem fyrir valinu verður hlýtur hið eftirsótta Stálstýri.

Stikkorð: Stálstýrið