
Hönnunardeild Volkswagen er í stuði þessa dagana. Þar á bæ hafa menn ákveðið að láta tölvuleikjabílinn Golf GTI Roadster verða að veruleika. Upphaflega var hann bara hannaður fyrir Playstation tölvuleikinn Gran Turismo en Volkswagen hefur nú ákveðið að smíða eitt eintak af þessum sportlega tölvuleikjabíl.
Um er að ræða tveggja sæta, topplausa útgáfu af Golf. Þetta er óneitanlega svakalega flottur bíll þótt hann sé bara smíðaður í þessu eina eintaki sem verður frumsýnt á Woerthersee bílasýningunni á næstu dögum. Volkswagen hefur frumsýnt marga kraftmikla hugmynda- og framleiðslubíla á þeirri sýningu í gegnum árin en nú verður þetta eina eintak af topplausa Golf sem verður gullmoli þýska bílaframleiðandans.
GTI Roadster er knúinn 3 lítra V6 vél með forþjöppu sem skilar 496 hestöflum. Bíll er aðeins 3,6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundrað.