*

Hitt og þetta 16. október 2020

Tölvuleikur fylgir vafra Vivaldi

Í nýrri uppfærslu netvafrans Vivaldi fylgir retró tölvuleikur úr smiðju Porcelain Fortress, sömu og gerðu No Time To Relax.

Vivaldi kynnir til sögunnar Vivaldiu sem er ekta retró tölvuleikur, innbyggður í vafra fyrirtækisins, í samstarfi við tölvuleikjafyrirtækið Porcelain Fortress. Hægt er að spila tölvuleikinn á Windows, Mac og Linux tölvum sem og á Android.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir um tveimur árum kynnti fyrirtækið Porcelain Fortress þá annan retró tölvuleik, No Time To Relax, en nýi leikurinn er innbyggður í vafra Vivaldi og því hægt að spila hann þar beint, en líkt og áður er spilunarstíllinn sóttur úr tölvuleikjum fortíðarinnar þó á allt annan máta.

Vivaldia er einfaldur leikur þar sem spilarinn keyrir í gegnum tvívítt landslag en þar leynast ýmsar hættur.Viðmótið í leiknum er þægilegt og notendavænt leikjaviðmót, bæði á borðtölvu og Android. Notendur geta án vandkvæða spilað leikinn í lengri eða skemmri tíma og þannig hafa þeir meira svigrúm til þess að ná markmiðum sínum.

Innblásinn af tæknipönki

Hetja leiksins, Vivaldia, berst við ill öfl til þess að ná borginni sinni úr höndum óvinarins. Leikurinn er innblásinn af Future Noir og tæknipönk hugmyndastefnum og hann er spilanlegur bæði með og án nettengingar, annars vegar á Windows, Mac og Linux tölvum, hins vegar á Android, Chromebook og spjaldtölvum. Leikurinn styður líka við leikjatölvur.

Notendur geta nú sótt Vivaldi 3.4, nýjustu útgáfu vafrans og spilað leikinn frítt, í honum vaknar hetjan, Vivaldia, upp við að risastórar, illvígar vélar hafa tekið yfir friðsælu borgina hennar og ætla sér að breyta borgarbúum í númer. Ef mannfólkið berst ekki gegn þessum vágestum er framtíðin svört.

Vivaldia eflist hins vegar við mótlæti, vex að afli og ræðst gegn óvininum. Hún berst til þess að bjarga mannfólkinu í borginni. Vivaldia hjólar á vélknúna rafmagns einhjólinu sínu sem hún kallar Hjólapönkarann. Vivaldia sigrast á illvígu vélunum. Á stundum virðist baráttan vonlaus en með hugrekki og baráttuvilja, sigrar Vivaldia. Hið illa tapar orrustunni og mannfólkið endurheimtir borgina sína og framtíðina.

Hægt er að staðsetja Vivaldia hnappinn hvar sem er á sérsniðum tækjaslám, s.s. stjórnborðs- og stöðuslám. Og það verður leikur einn að nálgast leikinn. Á Android tækjum, er hægt að sækja leikinn á Vivaldi valmyndinni eða á sérstöku leikjahraðvali á upphafssíðunni. Auk þess má einfaldlega slá inn vivaldi://game í veffangastikuna.

Hægt að skoða flipa hlið við hlið

Vivaldi vafrinn er sagður henta fullkomlega fyrir tölvuleikja- spilara og hönnuði. Áhugafólk um tölvuleiki getur fundið ýmislegt sem kemur þeim að góðum notum, s.s. margvíslegar fínstillingar og sveigjanlegar aðferðir við að vafra, til að mynda er hægt að leggja flipa í dvala til þess að spara minni.

Vivaldi er með öfluga flipastýringu, þar með talið möguleikann á að leggja flipa (eða flipabunka) í dvala, til þess að spara minni á meðan spilað er. Tölvuleikjaspilarar geta skoðað marga flipa í einu (hlið við hlið eða flísalagt með flipum), safnað flipum í flipabunka, leitað að, fest, dregið til og þaggað flipa.

Jafnframt á vafrinn að gera auðveldara fyrir notendur að rata um netið með stuðningi músabendinga, lyklaborðsflýtilykla, flýtiskipana og öflugu yfirliti yfir sögu. Skiptu um leitarvél á augabragði með því að nota gælunöfn leitarvéla og farðu hraðar yfir leitarniðurstöður með því að hraðspóla áfram og til baka.

Auðveldur aðgangur að Discord, Reddit o.fl.

Í vafra Vivaldi er jafnframt hægt að setja hvaða flipa sem sem er á hliðarstikuna með því að nota vefspjöld. Þannig er hugsunin að notandinn geti verið enn fljótari að sækja síður eins og Discord, Reddit o.fl. Auk þess fá notendur þannig greiðan aðgang að bókamerkjum niðurhölum, flipatrjám, og innbyggðum minnismiðum.

Jafnframt þurfa tölvuleikjaspilarar ekki lengur að sækja viðbætur til þess að horfa á HTML5 myndbönd í fljótandi glugga. Hægt er að horfa á þau í innbyggðu sprettigluggaviðmóti.

Taktu skjáskot af heilli síðu

Loks eru margvísleg innbyggð tól í Vivaldi, eins og t.d. tól til þess að taka skjáskot af heilli síðu, minnismiðar, reiknivél, klukka og hvíldahamur (ef þú vilt taka pásu frá netinu). Þannig á að vera hægt að vafra hraðar með því að loka á rekjara og óumbeðnar auglýsingar, sem og loka á auglýsingar og rekjara með innbyggðum auglýsinga- og rekjaravörnum.

Vivaldi Technologies er í fréttatilkynningu sagt vera fyrirtæki í eigu starfsmanna, en Jón Stephenson von Tetzchner er stofnandi og forstjóri fyrirtækisins. Höfuðstöðvar þess eru í Ósló í Noregi en þróun vafrans fer líka fram á skrifstofum fyrirtækisins í Reykjavík, Boston og Palo Alto.