*

Hitt og þetta 15. febrúar 2006

Tölvumyndir skoðuðu EJS

Eins og komið hefur fram þá tryggði Skýrr sér 58% hlut í tölvufyrirtækinu EJS sem boðið var til sölu fyrir skömmu. Mun fyrirtækið hafa háð nokkra baráttu við Tölvumyndir sem einnig skoðaði að kaupa EJS. Meirihlutaeigandi EJS var félagið Dseta ehf. sem Viðar Viðarsson, framkvæmdastjóri félagsins, var í forsvari fyrir en í eigendahópi þar er Ker ehf. og þar af leiðandi Ólafur Ólafsson, mágur hans. Einn af stofnendum EJS og fyrrverandi framkvæmdastjóri, Olgeir Kristjónsson, á 10% hlut. Félagið á 5% í sjálfu sér og afgangurinn er í eigu 500 hluthafa, þar á meðal nokkurra núverandi og fyrrverandi starfsmanna. Eftir því sem komist verður næst mun Viðar verða áfram við stjórnvölinn, í það minnsta fyrst um sinn. Margir sjá þó fyrir sér að töluverð breyting geti orðið á rekstri EJS á næstunni, jafnvel þannig að skilið verði á milli hugbúnaðarsviðs fyrirtækisins og tölvusölu. Samkvæmt heimildum bæjarróms hafa þegar nokkrir aðilar sýnt því áhuga að taka yfir tölvusölu EJS sem státar af því mjög svo eftirsóknarverða Dell-umboði en það eru mest seldu tölvur í heimi.

Markaðurinn "skúbbaði"
Það fór eins og margir höfðu vænst að breytingar urðu á tengslum FL Group og Icelandair en síðastliðinn föstudag greindi félagið frá áformum sínum um að skrá Icelandair sérstaklega í Kauphöllina. Víða höfðu verið vangaveltur um að nýir aðilar myndu kaupa rekstur Icelandair og var þá oftast nefndur til Ólafur Ólafsson, eigandi Kers. Var meðal annars sagt frá þessu hér í bæjarrómi á föstudaginn. Þegar síðan var tilkynnt um blaðamannafund hjá FL Group þá stóðst Markaðurinn, viðskiptakálfur Fréttablaðsins, ekki mátið og birti þessa fyrirsögn á forsíðu netmiðilsins Vísis, hálftíma fyrir blaðamannafund: "Ker kaupir Icelandair". Með fylgdi eftirfarandi frétt: "Fjárfestingarfyrirtækið Ker hefur keypt Icelandair, samkvæmt óstaðfestum heimildum Markaðarins. Boðað hefur verið til blaðamannafundar í höfuðstöðvum Icelandair við Reykjavíkurflugvöll klukkan tvö og viðskipti með bréf móðurfélagsins FL Group stöðvuð í Kauphöll Íslands." Það þarf ekki að taka fram að fréttin hvarf kl. 14 og hefur ekki til hennar spurst síðan.

Saga Class á flugi!
Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum sem ferðast milli Keflavíkur og London og Keflavíkur og Kaupmannahafnar að viðskiptafarrýmið (sem ber að sjálfsögðu heitið Saga-Class hjá Icelandair) nýtur gríðarlegra vinsælda. Oft má sjá að viðskiptafarrýmið teygir sig aftur í miðja vél og greinilegt að Icelandair nýtur góðs af íslensku útrásinni. Eftir því sem komist verður næst voru seldir farmiðar á Saga-Class ríflega 100.000 á síðasta ári. Það þætti líklega saga til næsta bæjar ef einn þriðji þjóðarinnar ferðast á viðskiptafarrými.