*

Bílar 26. júní 2015

„Top Gear“ þríeykið snýr aftur í nýjum bílaþætti

Jeremy Clarkson staðfestir að hann muni stýra nýjum bílaþætti í kjölfar þess að hann var rekinn frá BBC.

Jeremy Clarkson, sem áður stýrði hinum vinsæla bílaþætti Top Gear, hefur staðfest í samtali við Sunday Times að hann muni snúa aftur í sjónvarpið með nýjan bílaþátt.

Auk Clarkson munu hans gömlu félagar úr Top Gear, Richard Hammond og James May, ganga til liðs við nýja þáttinn og má búast við því að hann verði með ansi svipuðu sniði og forveri sinn.

Samkvæmt Sunday Times verður þátturinn formlega kynntur til leiks á næstu vikum, en enn á eftir að staðfesta á hvaða sjónvarpsstöð hann verður. Samkvæmt heimildum Daily Mirror er þríeykið þó afar nálægt því að semja við Netflix.

Ekki er langt síðan BBC kynnti DJ Chris Evans sem nýjan aðalmann í Top Gear, en búast má við því að þáttur Clarkson og félaga verði mun vinsælli.

Flestir muna eftir því þegar 22. þáttaröð Top Gear var skyndilega tekin úr umferð eftir að einungis sjö af níu þáttum hefðu farið í loftið. Það var gert eftir að Clarkson var vikið úr starfi tímabundið, en hann var síðar rekinn endanlega.

 

Clarkson fékk að fjúka eftir að hafa kýlt framleiðanda þáttarins á tökustað, en hann var ósáttur með að fá ekki almennilega steik í matinn eftir langan dag af tökum. Þeir James May og Richard Hammond yfirgáfu svo Top Gear þegar samningur þeirra rann út í apríl.

Stikkorð: bílar  • Top Gear  • sjónvarp  • Clarkson