*

Sport & peningar 26. júní 2012

Tottenham tilbúið að borga 1,6 milljarða fyrir Gylfa

Svo gæti farið að Gylfi komi í stað Luka Modric sem virðist á leið frá Tottenham.

Tottenham hefur fengið samþykkt tíu milljóna evra tilboð, um 1,6 milljarða íslenskra króna, í íslenska landsliðsmanninn, Gylfa Sigurðsson. Gylfi er samningsbundinn þýska liðinu Hoffenheim en liðið hefur nú samþykkt tilboð Tottenham ef marka má frétt The Guardian. Ekki hefur verið samþykktur samningur á milli Gylfa og Tottenham á þessum tímapunkti.

Í frétt Guardian kemur fram að tilboð Tottenham komi í kjölfarið á því að verulegur vafi leikur á því að Luka Modric leiki áfram með liðinu. Svo gæti því farið að Gylfi komi í stað Modric ef hann fer frá liðinu.

Gylfi Sigurðsson var lánaður til Swansea frá Hoffenheim á síðasta tímabili og vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína. Swansea fékk samþykkt tilboð í Gylfa en þegar Brendan Rodgers, fyrrverandi knattspyrnustjóri Swansea, var ráðinn til Liverpool virtist sem þær áætlanir hafi runnið út í sandinn.