*

Bílar 2. nóvember 2021

Toyota frumsýnir rafbíl

Toyota mun hefja sölu á fyrsta fjöldaframleidda rafbílnum sínum, bZ4X á næsta ári.

Róbert Róbertsson

Tímamót urðu hjá Toyota um helgina en þá frumsýndi japanski bílaframleiðandinn fyrsta bílinn sem fyrirtækið hannar frá grunni sem rafbíl. Nýi bíllinn ber heitið bZ4X.

Toyota bZ4X er einnig fyrsti bíllinn í nýrri vörulínu bílaframleiðandans. Stafirnir bZ standa fyrir beond Zero, en þar er vísað til þess að Toyota mun þróa bíla sem skila frá sér 90% minna af koltvísýringi árið 2050 en þeir gerðu 2010, hvort sem litið er til framleiðslu eða notkunar.

Toyota bZ4X er fjórhjóladrifinn bíll í millistærð sem mun þjóna bæði sem fjölskyldu- og borgarbíll en einnig sem ferðabíll við krefjandi aðstæður. Í bZ4X nýtist 25 ára reynsla Toyota við þróun rafhlaðna í Hybrid-bíla. Áætlað er að eftir 10 ára keyrslu eða 240.000 km notkun hafi rafhlaðan 90% af upprunalegri afkastagetu.

Rafhlaðan í nýja bílnum er 71,4 kWh og áætlað er að keyra megi 450 km á hleðslunni sem þó verður mismunandi eftir útfærslu, ytri aðstæðum og aksturslagi samkvæmt upplýsingum frá Toyota. Gert er ráð fyrir notkun bílsins í köldu loftslagi á þess að það dragi verulega úr drægi. 80% hleðslu verður náð á 30 mínútum með 150kW hraðhleðslu. Sala á bZ4X hefst á næsta ári.

Stikkorð: Toyota  • bZ4X