*

Bílar 7. janúar 2020

Toyota mest seldi bíllinn í 30 ár

Í ár eru 55 ár síðan fyrsti Toyota bíllinn var fluttur til landsins en framan af þóttu bílarnir framandi að sögn innflytjendans.

Róbert Róbertsson

Á þessu ári fagnar Toyota á Íslandi því að 55 ár eru síðan fyrsta Toyotan var flutt inn til landsins og jafnframt eru 50 ár frá stofnun fyrirtækisins. Margt hefur breyst frá því fyrsta Toyotan ók um göturnar í Reykjavík um miðjan 7. áratuginn. Japanskir bílar þóttu framandi og fáir spáðu þeim vinsældum.

Páll Samúelsson, stofnandi fyrirtækisins og samstarfsfólk hans, hafði mikla trú á Toyota og þau settu strax í upphafi þá stefnu sem fylgt hefur verið síðan, að veita góða þjónustu og setja þarfir viðskiptavinarins í fyrsta sæti. Þetta reyndist rétt stefna því vinsældir bílanna frá Toyota jukust jafnt og þétt og varð Toyota mest seldi bíllinn á landinu árið 1990. Þetta hefur endurtekið sig á hverju ári og nú hefur Toyota verið mest seldi bíllinn á Íslandi í 30 ár samfellt.

Lexus vörumerkið bættist í hópinn árið 2000 og heldur því upp á 20 ára afmælið í ár. Alls eru um 53.000 Toyota- og Lexusbílar í umferð á Íslandi. Starfsemin hefur blómstrað og nú eru fjórir viðurkenndir söluaðilar Toyota í Kauptúni, Reykjanesbæ, á Akureyri og Selfossi. Viðurkenndir þjónustuaðilar eru tólf talsins.

Auk þess að fagna því að 2019 var Toyota mest selda bílategundin er því einnig fagnað í Kauptúni að RAV4 var mest seldi bíllinn á landinu á síðasta ári og var valinn bíll ársins í sínum flokki. RAV4 kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1994 og með honum hófst nýtt skeið í hönnum bíla því RAV4 er fyrsti jepplingurinn. Þessi útfærsla á fólksbílum verður sífellt vinsælli og hafa nánast allir bílaframleiðendur fetað í fótspor Toyota og boðið bíla í svipaðri útfærslu.

Ár nýjunga hjá Toyota

Von er á ýmsum nýjungum á þessu ári og má meðal annars nefna Lexus UX rafmagnsbíl, RAV4 Plug-in og nýjan Proace sendibíl.Í byrjun nýs árs kynnti Toyota í samvinnu við TM Toyota og Lexus Tryggingar. Þetta er ný þjónusta hér á landi þar sem kaupendur nýrra og notaðra bíla hjá Toyota og Lexus geta gengið frá tryggingu bílsins á staðnum um leið og hann er keyptur.

Fljótlega geta núverandi bíleigendur einnig skipt yfir í Toyota-og Lexustryggingar. Auk þess að vera hefðbundin ábyrgðar- og kaskótrygging fá þeir sem eru með Toyota og Lexustryggingar bílaleigubíl allan viðgerðartímann í kaskótjónum, tryggt er að viðurkenndir Toyota- og Lexusvarahlutir eru notaðir og bíllinn er þrifinn að viðgerð lokinni.

Stikkorð: Toyota  • Lexus  • Páll Samúelsson