*

Bílar 4. september 2013

Toyota og Lexus frumsýna þrjá nýja bíla

Station útgáfa af Auris frumsýnd um helgina.

Toyota mun frumsýna nýjan Corollu og station útgáfu af Auris á haustsýningu hjá Toyota nk. laugardag 7. september. Þá mun Lexus frumsýna  lúxusbílinn IS 300h.  

Toyota Corolla er án efa einn vinsælasti bíll Íslands undanfarna áratugi en þetta er ellefta kynslóð þessa bílsins sem selst hefur í 40 milljón eintökum frá því hann kom fyrst á markað árið 1966. Bíllinn kemur bæði með dísil- og bensínvélum. 

Ný stationútgáfa af Auris er skemmtileg viðbót við þennan vinsæla bíl og hentar fjölskyldum einstaklega vel. Auris er fáanlegur bæði með dísil- og bensínvél auk Hybridútfærslu.

Lexus IS 300h er með hybrid tækninni og tekur við af IS 250 bílnum sem var aðeins með bensínvél. Nýi bíllinn er kraftmikill mjög og tvinnvélin skilar alls 223 hestöflum, 181 þeirra frá 2,5 lítra bensínvélinni, en afgangurinn kemur frá rafgeymum bílsins. Nánar er fjallað um Lexus IS 300h í Viðskiptablaðinu á morgun en þar er bíllinn tekinn út í reynsluakstri. Lexus IS 300h verður sýndur í Lexus salnum við Kauptún á laugardag.

Corolla og Auris verða kynntir á laugardaginn hjá viðurkenndum söluaðilum Toyota í Kauptúni, Reykjanesbæ, á Akureyri og Selfossi. Opið er hjá öllum söluaðilum frá kl. 12 til 16.

Stikkorð: Toyota