*

Bílar 11. nóvember 2018

Trabbinn og nostalgían

Trabant er táknmynd Austur-Berlínar, sem hefur tekið stakkaskiptum frá falli múrsins fyrir 29 árum.

Auðólfur Þorsteinsson

Trabant var framleiddur í borginni Zwickau. Í borginni hafði allt frá aldamótunum 1900 verið mikill bílaiðnaðar, og var t.a.m. Audi upphaflega framleiddur í Zwickau, en eftir stríðið flutti bílaframleiðandinn sig til Ingolstadt í Vestur-Þýskalandi og er hann þar enn. Fyrst eftir stríð voru nær eingöngu framleiddar landbúnaðarvélar í bílaverksmiðjunum í Zwickau en það átti fljótlega eftir að breytast.

Þegar Bjallan fór að renna af færiböndunum hjá Volkswagen í Vestur-Þýskalandi árið 1949 varð forustumönnum Alþýðulýðveldisins ljóst að nauðsynlegt væri að fjárfesta í sinni eigin útgáfu af bíl fyrir almúgann. Helsti vandinn við hönnun bílsins var hráefnisskortur sem var mikill í austrinu, og þá aðallega á járni. Niðurstaðan varð að gera yfirbygginguna úr Duroplasti, sem er blanda af bómull og plasti. Þetta gerði bílinn mun léttari fyrir vikið, aðeins 600 kg, og vélin þurfti ekki að vera neitt kraftmikil heldur, aðeins 22 hestöfl.

Biðu 15 ár eftir Trabbanum
Fyrstu Trabant bílarnir komu á markað árið 1954 og var þar á ferðinni Trabant P70 sem framleiddur var til ársins 1957. Trabant P50 var framleiddur á árunum 1957-1962 og P60/P600 frá 1962-1964. Það var svo árið 1964 sem Trabant P 601 kom á markað og var hann framleiddur allt til ársins 1990.

Trabantinn vakti snemma áhuga í mörgum löndum Evrópu, þá helst á Norðurlöndunum, þar á meðal hér á Íslandi, enda bíllinn mjög ódýr kostur. Menn voru samt frekar skeptískir á plastið en það sannaði sig ágætlega hér á Íslandi enda ryðfrítt. Það þótti samt ekkert ýkja flott að keyra um á Trabba, en margir létu skynsemina ráða. Það var þó ekki eins auðvelt fyrir almúgamanninn í Austur-Þýskalandi að eignast bíl og þurftu menn oft að bíða í heil 15 ár eftir að fá Trabantinn sinn afhentan.

Skildir eftir inni í skógi
Við fall Berlínarmúrsins varð Trabantinn að tákni fyrir fall Austur-Þýskalands, íbúar Alþýðulýðveldisins flykktust þá yfir landamærin til vesturs á bílum sínum, og langar bílalestir Trabanta urðu að forsíðumyndum um allan heim.

En allt í einu varð Trabbinn verðlaus og óeftirsóttur. Eins og skilja má vildu Austur-Þjóðverjar miklu frekar nú eignast bíla eins og BMW og Mercedes-Benz. Margir Trabbarnir enduðu því á ruslahaugunum eða var hreinlega keyrt inn í skóg og skildir þar eftir.

Síðasti Trabantinn rann af færibandinu í Zwickau árið 1991. Var þar á ferðinni Trabant 1,1 sem aðeins var framleiddur í eitt ár. Alls voru frameiddir nærri 3 miljónir Trabanta í Zwickau á 37 ára tímabili.

En tímarnir breytast og mennirnir með. Og allt í einu er Trabbinn kominn með „kult status“ hér í Berlín sem víða annars staðar. Og jafnvel að það þyki bara nokkuð flott að eiga einn uppgerðan Trabant. Þeir sjást enn þónokkrir hér, meðal annars brúni Trabantinn og auðvitað er enn fólk hér í Austur-Berlín sem keyrir enn á bílnum sem það þurfti jú að bíða í heil 15 ár eftir. Margir Trabbarnir hafa líka fengið nýtt hlutverk, verið gerðir upp og keyra nú um götur Berlínar með túrista, sem upplifa vilja nostalgíuna sem fylgir því að keyra um í þessum litla plastbíl frá DDR.

Stikkorð: Trabant  • Berlín