*

Viðtal, Hitt og þetta 9. mars 2017

Skekkja sem þarf að rétta

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir segir að í Félagi kvenna í atvinnulífinu ríki mikil samheldni og kraftur við að stuðla að því að efla tengslanet og kraft kvenna.

Kolbrún Pálína Helgadótt

„Þegar ég var lítil stelpa ætlaði ég mér að verða sálfræðingur eða mannfræðingur,“segir Hrafnhildur Hafsteinsdóttir ákveðin spurð um barnæskudrauminn en hún segist hafa haft mjög sterkar skoðanir um framtíðina ung að aldri enda með góðar fyrirmyndir allt um kring. Þó svo að hvorug gráðan hafi orðið fyrir valinu af þeim fjórum sem Hrafnhildur hefur sótt sér í dag, er óhætt að segja að hún hafi verið drifin af þessum sama áhuga allan ferilinn því hann spannar orðið margra ára reynslu af mannbætandi störfum sem snúið hafa að fólki. Á síðasta ári lét Hrafnhildur af störfum sem verkefnastjóri MBA náms í Háskólanum í Reykjavík þar sem hún starfaði í tæplega níu ár og tók við starfi framkvæmdarstjóri Félags kvenna í atvinnulífinu. „Í mér stangast á þessir tveir pólar, konan sem þarf fast land undir fótum sér, er skipulögð og jarðtengd en svo kemur upp í mér ævintýramanneskjan sem fer í teygjustökk, hoppar út í ár og fossa og vill áskoranir. Þetta eðli fylgir mér líka úti á vinnumarkaðnum og þar af leiðandi fæ ég mikið út úr því að takast á við nýjar áskoranir.“

Þúsund kröftugar konur

Á því eina ári sem Hrafnhildur hefur verið framkvæmdarstjóri FKA er óhætt að segja að félagið hafi dafnað vel. „Í FKA eru nú rúmlega þúsund félagskonur sem eru leiðtogar og stjórnendur og vilja stuðla að jafnvægi og fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.“

Hrafnhildur segir hlutverk sitt sem framkvæmdastjóri félagsins vera margþætt en að fyrst og fremst snúi það að eflingu félagskvenna. „Það er það sem ég brenn fyrir og gefur mér kraft. Starf mitt snýr að því að sameina raddir og markmið þeirra kvenna sem eru í félaginu og halda utan um margþætt starf FKA en við höldum um sextíu fundi á ári og stöndum fyrir mikilvægum hreyfiaflsverkefnum eins og að efla hlut kvenna í æðstu stjórnendastöðum, eflingu kvenna í fjölmiðlum og svo vorum við mikilvægur hlekkur í stjórnarverkefninu sem endaði á lagasetningu um hlutfall kvenna í stjórnir árið 2013.“

Velgegni félagasamtaka eins eins og FKA segir Hrafnhildur fyrst og fremst undir félagskonum komið en í því starfa um 100 konur í stjórn, nefndum, deildum og ráðum og landsbyggðanefndum. „Ég verð ég að segja að ég dáist að þeim eldmóði og því óeigingjarna starfi sem þessar öflugu konur leggja af mörkum og fyllist stolti af því að vera í FKA með þessum kröftuga hópi athafnakvenna.“

Skekkja sem þarf að rétta

 Í félaginu ríkir mikil samheldni og kraftur á meðal þeirra sem í því eru við að stuðla að því að efla tengslanet og kraft kvenna. „Rannsóknir sýna að þegar fjölbreytni er til staðar þá er framlegð meiri og þegar konur eru 49,4 % af fólki í landinu og við útskrifum fleiri konur úr háskólum landsins þá eru nýjustu tölur um þróun kvenna í stjórnendastöðum ekki ásættanlegar.“

Hlutfall kvenna sem gegndu stöðum framkvæmdastjóra hjá stærstu fyrirtækjum landsins var níu prósent árið 2016 og stóð í stað frá árinu á undan samkvæmt tölum sem Credit Info birti nú á dögunum. „Þegar við horfum til fjármálageirans þá eru tölurnar enn lægri, en Kjarninn tók saman tölur sem sýna að 91% þeirra sem stýra peningum á Íslandi eru karlmenn og konur aðeins níu prósent, sem er ekki ásættanlegt. Að við séum ennþá árið 2017 með lægri laun fyrir sömu vinnu er líka grátlegt. Við eigum jafn mikið af hæfileikaríkum og klárum konum þarna úti og karlmönnum, því liggur fyrir að það er enn einhver skekkja í atvinnulífinu sem þarf að rétta.

Viðtalið við Hrafnhildi má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.