*

Bílar 12. október 2014

Trukkur tilbúinn í átök

Landsnet hefur fengið Unimog trukk af gerðinni U4000 til umráða.

Guðjón Guðmundsson

Landsnet hefur fengið Unimog trukk af gerðinni U4000 til umráða. Hann er með fjögurra strokka, 218 hestafla BlueTec dísilvél sem uppfyllir Euro 5 mengunarreglugerðina. Hann kemur á 20” felgum og úrhleypingabúnaði fyrir loftþrýsting í hjólabörðum sem stjórnað er með rofa úr mælaborði. Þessi búnaður er nauðsynlegur til þess að bíllinn fái meira flot á snjó og þar með meira veggrip.

Trukkurinn er með driflæsingum að framan og aftan og yfirþrýstingur er á hásingum svo vatn kemst síður inn í þær. Bíllinn er með 160 lítra olíutank og dráttargetan er níu tonn. Vinnuflokkar Landsnets eru alltaf í viðbragðsstöðu.

Það þarf harðgera menn, kunnáttu, skipulagningu og aflmikil tæki til að sinna þessum skyldum, jafnvel í mörg hundruð metra hæð uppi á hálendinu í aftakaveðrum og oft við hættulegar aðstæður. Raforkuflutningsnetið er víðfeðmt og liggur um fjöll og firnindi.

Alls eru háspennulínur Landsnets ofanjarðar um 3.000 km að lengd og drjúgur hluti er á hálendinu þar sem allra veðra er von og snjósöfnun getur orðið mikil. Stundum vinna menn að viðgerðum á línum við alls kyns aðstæður í allt að 40 metra hæð.

Nánar er fjallað um málið í Bílablaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Landsnet  • Unimog