*

Sport & peningar 16. apríl 2018

Tryggvi í nýliðaval NBA

Miðherjinn Tryggvi Hlinason hefur ákveðið að gefa kost á sér í nýliðavali NBA deildarinnar.

Íslenski körfuboltamaðurinn Tryggvi Hlinason hefur ákveðið að skrá sig í nýliðaval NBA deildarinnar í körfubolta að því er ESPN greinir frá. 

Tryggvi hefur leikið fyrir Valencia á Spáni þar sem hann hefur spilað um 6,4 mínutur í leik. Tryggvi er miðherji og gerði afar gott mót í Evrópukeppni U20 landsliða þar sem hann skoraði 16,1 stig að meðaltali í leik, tók 11,6 fráköst og varði 3,1 skot en liðið komst í fyrsta skipti í 8-liða úrslit.  

Samkvæmt ESPN er Tryggvi 216 cm á hæð en byrjaði ekki að spila körfubolta fyrr en hann var 16 ára. Hann hefur tekið afar hröðum framförum í körfuboltanum og er talinn efnilegur í að ná fráköstum og verja skot. 

Samkvæmt ESPN er hann talinn sá 75. álitlegasti nýliðinn fyrir nýliðavalið. Nýliðavalið í NBA fer fram þeim hætti að hvert lið velur tvo leikmenn, einn í hvorri umferð, þannig í heildina veljast 60 leikmenn í deildina á hverju ári.