*

Bílar 7. september 2018

Tucson með mildri tvinntækni

Á morgun verður kynntur nýr Hyundai Tucson með uppfærða dísilvél, en auk þess verður hægt að fá bílinn með nýrri „mildri tvinntækni“.

Ný og uppfærð útfærsla af Hyundai Tucson verður kynntur til leiks á morgun laugardag. Tucson er einn af vinsælustu sportjeppum suður-kóreska bílaframleiðandans. 

Bíllinn hefur fengið uppfærða og snarpari 1,6 lítra og 136 hestafla dísilvél með forþjöppu en auk þess er hægt að fá bílinn með nýrri „mildri tvinntækni“ (Mild Hybrid) sem Hyundai hefur valið að frumsýna með Tucson.

Við 1,6 lítra dísilvél Tucson er ný og afar skilvirk sjö gíra DCT-sjálfskipting sem dregur úr eldsneytiseyðslu um 0,9 lítra að meðaltali á hverja hundrað kílómetra þar sem hún fer úr 6,1 l í 5,2 l við blandaðan akstur. Þá er bíllinn ennfremur kominn með HTRAC-fjórhjóladrif sem upphaflega var hannað fyrir lúxusmerkið Genesis.

Mild Hybrid-tæknin er 48 volta og 12kW hjálparrafmótor sem hefur það hlutverk fyrst og fremst að draga úr eldsneytisnotkun og losun koltvísýrings. Tækni Mild Hybrid í Tucson er frábrugðin tækni hefðbundinna tvinnbíla (Hybrid) að því leyti að rafmótor Tucson er ekki hugsaður sem aflgjafi sem vinnur stöðugt með sprengihreyflinum heldur eingöngu sem hjálparaflgjafi við vissar kringumstæður þegar reynir á dísilvélina og eldsneytiseyðslan eykst. Þá kemur 12kW hjálparrafmótorinn inn til að sporna við aukinni eyðslu.

Tucson hefur breyst aðeins í útliti og hefur m.a. fengið ný aðalljós með LED sem gefa honum enn svipsterkara yfirbragð. Þau ná upp í efstu horn stallaða grillsins og eru miðpunktur endurhannaða framhlutans. Ný LED-ljósasamstæða blasir við að aftan sem einnig gefur einkennandi útlit og aukinn sýnileika. Að auki hafa fram- og afturstuðari verið endurhannaðir í nýju útliti sem einnig ýta undir sérkennandi útlit sportjeppans. 

Í farþegarými Tucson blasir við breytt hönnun þar sem nýtt mælaborð og 8“ snertiskjár eru mest áberandi. Þá er bíllinn með 360° umhverfismyndavélakerfi auk þess sem leiðsögukerfið styðst við þrívíddarkort og fimm ára endurgjaldslausa áskrift að LIVE Services sem veitir m.a. aðgang að upplýsingum um veður, umferð og fleira.

Að lokum má nefna að Tucson er búinn nýjustu akstursöryggis- og aðstoðartækni Hyundai, svo sem sjálfvirkri hemlun, akgreinavara, blindhornsviðvörun og annarri öryggistækni. Tucson verður kynntur hjá Hyundai í Garðabænum á morgun, laugardag, milli kl. 12 og 16.