*

Sport & peningar 28. júlí 2018

Tugir milljóna undir á fimmtudaginn

Rúmlega 30 miljónir króna eru undir fyrir Val, FH og Stjörnuna þegar liðin leika seinni leikinn í forkeppni Evrópudeildarinnar á næstkomandi fimmtudag.

Ástgeir Ólafsson

Að minnsta kosti 280.000 evrur eða því sem nemur um 34 milljónum íslenskra króna eru undir fyrir Val, Stjörnuna og FH þegar liðin mæta mótherjum sínum í annari umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla næstkomandi fimmtudag. Samkvæmt úthlutunarreglum Knattspyrnusambands Evrópu hafa FH og Stjarnan nú þegar unnið sér inn um 61 milljón króna. 

Valsmenn unnu sér einnig inn um 66 milljónir fyrir þátttöku í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið féll naumlega úr leik eftir einvígi við norska liðið Rosenborg þar sem dómari leiksins reyndist Valsmönnum dýrkeyptur. Þá fékk ÍBV um 29,5 milljónir fyrir þátttöku í keppninni en Eyjamenn voru slegnir úr leik í fyrstu umferð eftir samanlagt 6-0 tap gegn norska liðinu Sarpsborg 08.

FH og Stjarnan fengu svo um 32 milljónir til viðbótar fyrir að komast í aðra umferð undankeppninnar. Garðbæingar slógu eistneska liðið Nõmme Kalju úr keppni 3-1 samanlagt á meðan Fimleikafélagið sló finnska liðið Lahti úr leik 3-0

Misjöfn staða liðanna

Staða íslensku liðanna fyrir seinni leik annarrar umferðar er ansi misjöfn. Stjarnan er nánast fallin úr leik eftir að hafa tapað 2-0 fyrir FC København á heimavelli. Möguleikar hinna liðanna eru hins vegar töluvert betri. Þrátt fyrir að Valsmenn hafi tapað fyrri leiknum geng andorrska liðinu Santa Coloma 1-0 geri flestir knattspyrnusérfræðingar ráð fyrir því að Hlíðarendaliðið slái það andorrska úr leik þegar liðin mætast á Origo vellinum á Hlíðarenda á fimmtudag. Möguleikar FH eru einnig góðir fyrir seinni leikinn í Kaplakrika. Liðið náði sterku 1-1 jafntefli á útivelli gegn ísraelska liðinu Hapoel Haifa á í fyrri leik liðanna. 

Þess má geta að leikur Vals á Origo vellinum á Hlíðarenda hefst klukkan 20 á fimmtudag á meðan leikur FH hefst klukkan 19:15 í Kaplakrika. Leikur Stjörnunnar í Kaupmannahöfn hefst svo klukkan 18 að íslenskum tíma.