*

Ferðalög & útivist 22. nóvember 2013

Tuttugu mest óþolandi hlutir sem fólk gerir í flugvél

Næst þegar þú ætlar að burðast með ferðatösku um borð í flugvél eða draga upp franskar, hugsaðu þá aðeins um þá sem eru í kringum þig.

Ferðalög geta tekið á og þá sérstaklega flugferðir. CNN hefur tekið saman tuttugu óþolandi hluti sem fólk gerir af sér í flugi.

Það vekur athygli hvað sum atriðin eru ótrúlega algeng og margir gerast sekir um. Lítum á atriðin tuttugu:

1. Troðningur í farangursrými. Það er aldrei gaman að horfa á samferðamann dúndra meðalstórri ferðatösku ofan á litla veskið þitt í farangursrýmið fyrir ofan sætin.

2. Sama kvikmyndin. Það er fátt jafn óþolandi og þegar manneskjan við hliðina horfir á sömu kvikmynd, en aðeins á undan þér. 

3. Fótaóeirð. Segir sig sjálft. 

4. Að fara um borð áður en kallið kemur. Þegar börn og gamalmenni mega fara um borð á undan öðrum er galið dónalegt að troða sér með í þann hóp. 

5. Grátandi börn. Grátur og öskur í barni í marga klukkutíma tekur á. 

6. Pirringur þegar einhver þarf að standa upp. Gaman að sitja við hliðina á manneskju sem stynur og ranghvolfir í sér augunum í hvert skipti sem þú þarft að standa upp. 

7. Gjamm í farsíma. „Já hæ! Við erum lent. Ha? Já, heyrirðu núna í mér? VIÐ ERUM LENT!!“ 

8. Matur sem lyktar. Í alvöru. Ekki draga upp KFC máltíð í flugi. Eða nokkurn annan djúpsteiktan mat. Og ekki heldur sushi. 

9. Að tala hátt. Segir sig sjálft. 

10. Olnbogi á sætisarminn. Það er óskrifuð regla að troðast ekki með olnbogann á sætisarminn. 

11. Hertekning á tómu miðjusæti. Ef miðjusætið er autt er asnalegt að leggja það undir sig. 

12. Hóst, hnerri og annað bakteríusmitandi rugl. Segir sig sjálft. 

13. Tölvuleikir með hljóðið í botni. Lagið í Angry Birds er hresst. En bara ef allir eru fullir. 

14. Stór ferðataska dregin inn í vélina. Fólk, sem neitar að tékka inn stórar töskur og finnst eðlilegt að stoppa alla vélina þegar draslið er dregið um borð, er ekki vinsælt. 

15. Fólk fyrir aftan þig sem treðst út úr vélinni á undan þér. Rugl dónalegt. 

16. Óþrifnaður. Það getur verið hvimleitt að sitja við hliðina á manneskju sem hefur ekki farið í bað í ár. 

17. Berir fætur. Ekki gera þetta. 

18. Hangs á klósettinu. Segir sig sjálft. 

19. Sætið aftur á bak. Það er manneskja á bak við þig sem fær stundum borðið inn í kviðinn þegar þú hallar sætinu aftur, hafðu það í huga. 

20. Spark í sætið. Vont.