*

Hitt og þetta 30. júlí 2013

Tveggja metra há KFC fata í garðinum

Draumur allra aðdáenda KFC virðist hafa ræst hjá fjölskyldu einni í Georgia þegar dag einn birtist skyndilega tveggja metra há KFC fata á lóðinni.

KFC fata á stærð við stóran bíl var það sem blasti við fjölskyldu í Georgia í Bandaríkjunum á dögunum.

Aleena Headrick var á rúntinum framhjá húsinu sínu og sá allt í einu hvar risafata frá skyndibitastaðnum, Kentucky Fried Chicken, sat á lóðinni. Hún hélt fyrst að hún væri að sjá ofsjónir svo hún hringdi heim í unglingana sína og lét þá kanna málið. Og þeir staðfestu sýn móður sinnar. Fatan var á lóðinni. 

Aleena tók mynd og skellti henni á Facebook og innan skamms var lóðin full af fólki sem vildi líka ná myndum af fötunni.

Fljótlega kom í ljós að eigandi hússins sem Aleena leigir safnar gömlum skiltum. Hann hafði, að henni forspurðri, keypt fötuna og látið stilla henni upp á lóðinni, beint fyrir utan húsið. Athygli vekur að á fötunni stendur Kentucky Fried Chicken en ekki KFC, sem þykir benda til þess að fatan sé yfir 40 ára gömul.

Og Alenna kippir sér ekkert upp við fötuna og segir auðvelt að vísa fólki veginn að húsinu. Þú eltir bara KFC fötuna, segir hún. 

Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að KFC hefur boðið fjölskyldunni ókeypis máltíð frá veitingastaðnum í tilefni fötunnar. 

Stikkorð: Hamingja  • KFC  • Gleði  • Kentucky Fried Chicken