*

Tölvur & tækni 18. febrúar 2013

Twitter, Pinterest og Instagram í baráttu um 2. sætið

Facebook er langvinsælasti samskiptavefurinn í Bandaríkjunum en baráttan um annað sætið er jöfn.

Þegar kemur að vinsældum samfélagsmiðla ætti ekki að koma neinum á óvart að Facebook ber þar höfuð og herðar yfir samkeppnina, en samkvæmt nýrri könnun Pew Research Center nota alls 67% bandarískra netverja þá síðu.

Samkeppnin um annað sætið er hins vegar harðari en margur gæti ætlað. Twitter er vissulega í öðru sæti með um 16% bandarískra netverja, en alls nota 15% myndasíðuna Pinterest. Fjórði vinsælasti samfélagsmiðillinn er önnur myndasíða, Instagram, en alls nota 13% bandarískra netverja þá síðu.

Munurinn á milli þessara þriggja síðna er ekki mikill, einkum þegar haft er í huga að skekkjumörk í könnuninni eru 2,6%. Instagram eða Pinterest gætu því vel verið næstvinsælasti samfélagsmiðillinn á eftir Facebook. Það eina sem er ljóst er að Facebook trónir á toppnum.

Stikkorð: Facebook  • Twitter  • Instagram  • Pinterest