*

Bílar 14. maí 2017

Tyggjóið bjargaði

Benz er í uppáhaldi hjá Svala en eftirminnilegasta bílferðin var á Snæfellsnesi en þá kom tyggjóið að góðum notum.

Róbert Róbertsson

Sigvaldi Kaldalóns, betur þekktur sem Svali, er útvarpsstjóri á K100. Hann stýrir hinum vinsæla morgunþætti á útvarpsstöð­inni ásamt Svavari Erni. Svali er mikill áhugamaður um bíla og hefur átt ansi marga kagga í gegnum tíðina.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Þetta er svolítið tímabilskennt. Ég datt í kvartmíludellu og þá voru allir aflmiklu Subaruarnir í uppáhaldi. Svo datt ég í jeppana og þar voru nokkrir í uppáhaldi, m.a. Land Cruiser og Patrol. Það voru nánast helgispjöll að fara úr Land Cruiser í Patrol. Nú á ég Mercedes-Benz GLC og hann er í miklu uppáhaldi enda eðalgóð­ ur sportjeppi. Ég hef átt nokkra Benz bíla í gegnum tíðina og þeir hafa alltaf verið í svolitlu upp­ áhaldi.

Einn af uppáhalds Benzunum var C-Class árgerð 1965. Þetta var alger gullmoli. Það var rúntað víða á honum. Ég er ansi heitur fyrir þýskum bílum og hef átt Volkswagen, Audi og BMW bíla en ég er svolítið Mercerdes megin í lífinu verð ég á viðurkenna.”

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

„Ég átti Ford Escort 1984 árgerð þegar ég var 17 ára. Ég keyrði hann eitt sinn á Snæfellsnes. Ég tók allt í einu eftir því að bensínnálin lækkaði ískyggilega hratt. Þegar ég fór út úr bílnum og fór að athuga málið þá kom í ljós að bensíntankurinn míglak. Það var hlíf fyrir þannig að ég gat ekki séð þetta nógu vel. Ég stoppaði því á næsta bóndabæ þar sem bóndinn tók bílinn inn í hlöðu og við förum að kíkja undir húddið. Þá kom í ljós að bensíntankurinn var eins og sturtuhaus. Hann var svo mikið tærður að hann míglak. Ég var alltaf með tyggjó á þessum tíma og var að tyggja þarna í hlöð­ unni. Bóndinn spurði hvort ég ætti nóg tyggjó og úr varð að við tuggðum tyggjó eins og enginn væri morgundagurinn og tróðum tyggjói í öll götin. Ég keyrði eins og brjálæðingur í bæinn og tankurinn hélt með tyggjóinu. Þetta var alveg mergjaður bíltúr.“

Nánar má lesa um málið í bílablaði sem fylgdi Viðskiptablaðinu 11. maí. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: bílar  • Sigvaldi Kaldalóns  • Svali