*

Hitt og þetta 15. júní 2004

Um 500.000 vírussýkt skeyti stöðvuð

vírusinn lítur ekki út fyrir að vera í rénun

Internetþjónusta Símans hefur á einum og hálfum sólarhring stöðvað um 500.000 vírussýkt skeyti sem send voru til viðskiptavina Símans. Starfsmenn Internetþjónustu Símans hafa sjaldan séð annað eins magn sýktra skeyta á jafn skömmum tíma. Póstþjónar Internetþjónustu Símans hafa að undanförnu verið undir miklu álagi vegna gífurlegs fjölda skeyta sem ormarnir Sober G og Sober H dreifa nú um netið segir í frétt á heimasíðu Símans.

Ormarnir hegðar sér þannig að þeir láta smitaðar tölvur senda sýkt skeyti áfram til þess að dreifa sér til einhvers netfangs sem valið er af handahófi úr netfangaskrá sýktu tölvunnar. Pósturinn er einnig látinn líta út fyrir að koma frá einhverju öðru netfangi úr skránni.

Af þessum sökum hefur eðlileg umferð tölvupósts truflast og póstur berst því síðar en ella. Rétt er að taka fram að tölvupóstur mun ekki týnast af þessum sökum og vírusinn skemmir ekki gögn sem geymd eru á tölvum eða í tölvukerfum.

Álag er enn mikið á póstþjóna Internetþjónustu Símans og vírusinn lítur ekki út fyrir að vera í rénun. Sökum mikillar útbreiðslu sýkingarinnar er líklegt það muni taka þó nokkra daga fyrir álag að minnka.

Vegna mikils álag tölvuorma undanfarna mánuði vill Internetþjónusta Símans benda tölvueigendum á að besta leiðin til að verja sig gegn slíku er að uppfæra tölvur sínar reglulega og setja upp eldveggi. Auk þess er mikilvægt að opna ekki póst sem talinn er innihalda ormana og eyða honum strax út úr tölvupóstinum.

Til að athuga hvort tölva sé sýkt má fá ókeypis skönnun fyrir vírusum á nokkrum stöðum á netinu, til dæmis http://housecall.trendmicro.com/

Ef upp kemur að tölva er smituð þarf að nálgast vírusvarnarforrit sem kaupa má í öllum helstu tölvubúðum eða á netinu, til dæmis á www.frisk.is, www.McAfee.com eða www.trendmicro.com.