*

Ferðalög & útivist 27. júlí 2014

Um áttatíu húsbílar liðu í rólegheitum um Suðurland

Húsbílaeigendur hafa farið í um tíu ferðir á hverju ári í 31 ár. Stóra ferðin er farin einu sinni á ári. Hún tekur eina viku.

Það er viss kjarni sem ferðast með okkur. En nú er mikið af fólki sem er að koma í sína fyrstu ferð,“ segir Soffía G. Ólafsdóttir, formaður Félags húsbílaeigenda. Félagsmenn fóru í sína árlegu stóru húsbílaferð um liðna helgi.

Ferðin hófst á tjaldstæðinu á Selfossi laugardaginn 11. júlí. Þar var áð í tvo daga til að hrista saman hópinn og hlaða batteríin fyrir það sem fram undan var. Þar hittust þeir 154 félagsmenn sem skráðir voru í ferðina á um 80 bílum, mynduðu tengsl, dustuðu rykið af minningunum um fyrri ferðir og skipulögðu framhaldið. Þaðan var svo haldið að tjaldstæðinu í Hamragörðum við Seljalandsfoss. Tæpur helmingur félagsmanna fór örlítið af leið, átti pantað far með rútu til Landeyjahafnar. Þaðan var farið með Herjólfi yfir til Vestmannaeyja og farinn rúntur þar í rútunni með leiðsögumanni sem lýsti sögu staðarins og staðháttum fyrir ferðalöngum.

Frá Hamragörðum fór hersingin til Víkur í Mýrdal og þaðan í Skaftafell en í þeirri náttúruparadís var dvalið í tvo daga til viðbótar. Stóra ferðin endaði svo í Mánagarði í Nesjahverfi skammt frá Höfn í Hornafirði. Eins og venjan hefur verið í gegnum árin endaði stóra ferðin með miklu húllumhæi; stórglæsilegu galakvöldi í gamla íþróttahúsinu á Höfn og dansleik á eftir en þar lék Dansband Friðjóns Jóhannssonar fyrir dansi. Daginn eftir hélt svo hver húsbílaeigandi til síns heima.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.